*

Bílar 6. nóvember 2016

Umboð fyrir Fiat Chrysler

Íslensk-Bandaríska ehf., eða Ís-Band eins og fyrirtækið er daglega kallað, var stofnað árið 1998 af Októ Þorgrímssyni utan um innflutning á notuðum bílum frá Bandaríkjunum.

Ís-Band hefur verið öflugt í innflutningi á bílum frá Jeep, Ram og Dodge og hefur Jeep Grand Cherokee verið einn vinsælasti jeppi landsins þrátt fyrir að ekki hafi verið starfrækt umboð fyrir tegundina í fjölda ára. Sama má segja um Ram-pallbílana. Fyrir skömmu tókust samningar um að Ís-Band yrði dreifingaraðili fyrir FCA (Fiat Chrysler Automobiles) á Íslandi. Undir merki FCA falla m.a., Fiat, Fiat Professional atvinnubílar, Jeep, Chrysler, Dodge, Ram og Alfa Romeo.

Ísland er eitt örfárra landa í heiminum sem fær bíla Fiat Chrysler bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum en þessi markaðssvæði eru að hluta til sitt með hvorar bílategundirnar. Þessa dagana er verið að endurnýja sýningarsal Ís-Band í Þverholti 6 í Mosfellsbæ og er sala nýrra bíla á meðan í húsnæði 100bíla í Stekkjarbakka 4 í Mjódd, en 100bílar selja notaða bíla Ís-Band, ásamt öðrum notuðum bílum.

Spennandi og krefjandi verkefni

Að sögn Októs Þorgrímssonar, stjórnarformanns Ís-Band, er það bæði spennandi og krefjandi verkefni að opna nýtt umboð fyrir FCA. ,,Það er ekki einungis krefjandi að setja nýtt söluumboð á laggirnar, því það er ekki síður mikilvægt verkefni að bjóða upp á góða verkstæðis- og varahlutaþjónustu. Nýtt þjónustuverkstæði- og varahlutaverslun okkar er að Smiðshöfða 5, en þar er mikil lofthæð til að geta sinnt vel stórum bílum eins og húsbílum, atvinnubílum og pallbílum. Við munum líka sinna öllum almennum bílaviðgerðum á öllum tegundum,enda eru starfsmenn okkar með áratuga reynslu frá öðrum bifreiðaumboðum,“ segir Októ. Jóhannes Jóhannesson fer fyrir rekstri þjónustusviðs, en hann hefur mikla reynslu af þjónustu við bíleigendur og hefur starfað lengi fyrir Toyota.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.