*

Hitt og þetta 8. mars 2013

Umbúðir fyrir nasl hlutu fyrstu verðlaun í umbúðasamkeppni

Umbúðir fyrir nasl voru hlutskarpastar í Umbúðahönnun sem er umbúðasamkeppni Odda, FÍT og Norræna hússins.

Helga Björk Gunnarsdóttir, Anna Guðbjartsdóttir og Ásta Þórðardóttir hlutu fyrstu verðlaun í gær fyrir umbúðir fyrir nasl í Umbúðahönnun 2013 sem er umbúðasamkeppni Odda, FÍT og Norræna hússins.

Um 40 tillögur bárust í keppnina og voru 14 bestu tillögurnar til sýnis á lokakvöldinu í gær í Norræna húsinu.

Umbúðirnar þóttu eftirektaverðar vegna skemmtilegs forms og þóttu þær einnig handhægar og notendavænar.

Önnur úrslit kvöldsins voru að í öðru sæti var Lauri Virkkunen sem hannaði umbúðir fyrir léttvín og þriðja sætið hlaut Gerður Steinarsdóttir fyrir umbúðir utan um harðfisk og smjör.

Tvenn aukaverðlaun voru veitt og út fyrir boxið verðlaunin, sem eru verðlaun sem veitt erum þeim aðila sem sýnir fram á framsækna eða nýja notkun umbúða, hlaut Wiesław Mazurowski fyrir gítarstandinn. Hin aukaverðlaunin voru fyrir umhverfisvænstu tillöguna og hana hlutu George Hollanders og Sarka Mrnakova fyrir skemmtilega tillögu við endurnýtingu á umbúðum.

Allar 14 tillögurnar sem komust í úrslit verða til sýnis í Listasafni Reykjavíkur á Hönnunarmars í tengslum við sýningu Félags Íslenskra teiknara. Sýningin fer fram 14. – 17. mars.

Stikkorð: Hönnun  • HönnunarMars