*

Bílar 18. júlí 2015

Umbuna tryggum viðskiptavinum

Tryggingafélögin sátt við lagabreytingar um vátryggingar sem heimila viðskiptavinum að segja upp með mánaðar fyrirvara.

Um mánaðamótin tók gildi breyting á lögum um vátryggingar sem heimilar viðskiptavinum tryggingafélaga að segja upp tryggingum með mánaðar fyrirvara, hyggist þeir flytja viðskipti sín til annars tryggingafélags.

Áður sögðu lögin að aðeins væri hægt að skipta um tryggingafélag einu sinni á ári. Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir að markmið laganna sé að auka samkeppni og neytendavernd á markaðnum. Meiri samkeppni ætti að leiða til lækkunar iðgjalda.

Ekkert þeirra tryggingafélaga sem Viðskiptablaðið setti sig í samband við vegna málsins kvaðst vera á móti lagabreytingunum. Þvert á móti taka félögin almennt vel í það að viðskiptavinir eigi auðveldara með að skipta um tryggingafélag.

Lifandi samkeppni

Atli Örn Jónsson, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Verði, segir að lagabreytingin muni ekki hafa mikil áhrif á fyrirtækið.

„Þó að löggjöfin hafi verið þannig að þetta sé 12 mánaða samningur og þú sért fastur í 12 mánuði, þá höfum við alltaf leyft fólki að segja upp og fara ef það vill fara. Við höfum ekkert verið að binda fólk,“ segir hann. Atli segir þó að lagabreytingin kunni að koma róti á markaðinn. Breytingarnar geti haft í för með sér sóknarfæri fyrir Vörð.

„Félögin munu auðvitað umbuna þá kúnna sem eru tryggir og eru í löngum og farsælum viðskiptum, þetta verður þannig,“ segir Atli.

Aðilar sem Viðskiptablaðið ræddi við frá Sjóvá, TM og VÍS tóku í svipaðan streng.

Nánar er fjallað um málið í veglegu aukablaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Tryggingar  • bílar