
Nýr Volkswagen Passat GTE var kynntur til leiks hér á landi um síðustu helgi en þessi tengiltvinnbíll er nýjasta viðbótin í Volkswagen fjölskyldunni. Hann er annar tengiltvinnbíllinn frá þýska bílaframleiðandanum en Golf GTE kom á markað á síðasta ári.
Passat GTE kemur með 1.4 TSI bensínvél með innbyggðum rafmótor sem samanlagt skilar 218 hestöflum. Bíllinn nær allt að 50 km vegalengd á rafmagninu einu saman og án nokkurs útblásturs. Meðaleyðsla er 1,6 lítar á hverja 100 kílómetra og hann er 7,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.
Meðal staðalbúnaðar í Passat GTE er Alcantara sæti með rafmagnsstillanlegum bakstuðningi, lyklalaus ræsing, margmiðlunartæki með 6.5" litaskjá, 7 loftpúðar, nálgunarvarar að aftan og framan, bakkmyndavél, litað gler í afturrúðum, rafmagnsopnun á afturhlera og 17" Montpellier álfelgur.