*

Bílar 31. október 2012

Umhverfisvænn C-Zero

Lítill og hljóðlaus rafmagnsbíll getur verið áhugaverður kostur fyrir þá sem aka allt að 100 kílómetra á dag.

 

Nýi rafbíllinn Citroën C-Zero var kynntur á dögunum í Brimborg. Þessi litli, franski rafmagnsbíll er áhugaverður kostur fyrir þá sem aka um 80-100 km á dag. Hann er einfaldlega hlaðinn á nóttunni, líkt og tölva eða snjallsími, og svo tilbúinn að morgni dags. Hins vegar er auðvitað nauðsynlegt að hafa bílskúr eða bílgeymslu með aðgengi að rafmagni svo hægt sé að hlaða bílinn. 

C-Zero fer um eins sannur rafbíll hljóðlaust og fullkomlega mengunarlaust. Bíllinn er stuttur og nokkuð sérstakur í útliti með háa framrúðu. Hann leggur vel á og hefur því aðgang að þröngum bílastæðum. Svo kostar ekkert að leggja honum í miðbænum í allt að 90 mínútur. C-Zero er áhugaverður kostur fyrir fyrirtæki sem vilja byggja upp umhverfisvæna ímynd auk þess sem þau geta um leið lækkað verulega rekstrarkostnaðinn.

Árlegur rekstrarkostnaður vegna rafmagnsnotkunar fyrir Citroën C-Zero er áætlaður tæplega 50 þúsund sé gert ráð fyrir að fullhlaðinn komist hann u.þ.b. 100 km. Hliðstæðar tölur fyrir sparneytinn bensín- eða dísilbíl eru hins vegar 327.600 sé miðað við 18.000 km keyrslu á ári og að bensínlítrinn kosti 260 krónur.

Afl rafmótors er 67 hestöfl en gerð rafhlaða er Liþíum-jóna. Drægi bílsins er eins og áður segir 80-100 km. C-Zero slær seint hraðamet en hröðun 0-100 km er heilar 15,9 sekúndur. Hámarkshraðinn er 130 km. Þess má geta að Citroën C-Zero á sérs syturbíl í Mitsubish i-MiEV.

Hér má sjá myndband af reynsluakstri bílsins.

Stikkorð: Citroën C-Zero