*

Veiði 30. nóvember 2013

Skar fyrirtækið niður um helming

Árni Baldursson hjá Lax-á segir að þegar hann sá hvert stefndi í rekstri fyrirtækisins hafi hann dregið umsvifin saman um helming.

Trausti Hafliðason

„Þegar ég sá í hvað stefndi í vor leit ég í eigin barm. Ég sá að Lax-á var orðið allt of stórt fyrirtæki og að við vorum að tapa miklum peningum,“ segir Árni Baldursson hjá Lax-á, einu umsvifamesta félagið á laxveiðimarkaðnum. Lax-á hefur nú dregið saman seglin og á þessu ári hefur félagið til að mynda hætt með fjórar laxveiðiár. Það eru árnar Víðidalsá, Ytri-Rangá, Laugardalsá og Skjálfandafljót. Félagið er þó enn með fjölmörg veiðisvæði hérna heima og ber helst að nefna Stóru-Laxá, Eystri-Rangá, Blöndu, Svartá, Hvannadalsá, Langadalsá og nokkur svæði í Soginu.

Árni segir í samtali við Viðskiptablaðið að þótt ársreikningurinn sé ekki kominn út þá hafi tapið verið mikið - líklega yfir hundrað milljónir króna.

„Þrátt fyrir 26 ára sögu fyrirtækisins, öflug sambönd og þá staðreynd að við getum selt óhemju af veiðileyfum þá dugði það ekki til. Menn voru bara ekki að kaupa veiðileyfi, hvorki Íslendingarnir né útlendingarnir. Þetta varð til þess að ég settist niður og ákvað að taka u-beygju í rekstrinum og breyta hugarfarinu hjá sjálfum mér og starfsmönnum fyrirtækisins,“ segir hann.

„Í kjölfarið á þessari dýfu tókum við mjög einbeitta ákvörðun um að minnka fyrirtækið um helming - algjörlega um helming. Við fækkuðum ánum um helming og tókum þá ákvörðun að vera með þægilegt framboð af veiðileyfum og sinna okkar veiðimönnum betur en nokkurn tímann áður. Einnig ákváðum við að reyna með öllum tiltækum ráðum að komast hjá því að hækka verð á veiðileyfum. Við höfum frekar reynt að lækka verð eða í versta falli að halda þeim óbreyttum milli ára. Núna snýst allt um það hjá okkur að vera góð við veiðimenn og þjappa okkur saman með þeim. Veiðileyfin okkar eiga að vera uppseld 20. júní, þá ætlum við ekki að eiga eitt veiðileyfi eftir. Í dag erum við algjörlega á áætlun," segir hann.

Ítarlegt viðtal má lesa við Árna um veiðina í Viðskiptablaðinu.  Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Laxá í Kjós  • Lax-á  • Árni Baldursson