*

Ferðalög & útivist 16. maí 2013

Undarlegar óskir ferðamanna

Ræðismenn og starfsfólk sendiráða aðstoða jafnan ferðamenn í vanda. En stundum eru beiðnirnar furðulegar og óviðeigandi.

Að gefnu tilefni hefur utanríkisþjónusta Bretlands sett af stað herferð sem heitir „Know Before You Go“ eða „Aflaðu upplýsinga áður en þú leggur í hann“. The Telegraph segir frá málinu hér

Tilgangurinn með herferðinni er að fræða breska ferðamenn í hvaða tilfellum þeir eigi að leita sér aðstoðar yfirvalda á ferðalögum og hvenær þeir eigi frekar bara að sleppa því. Þeir taka sem dæmi að beiðnir um að þýða tattú eða gera bakgrunnstékk á fólki á stefnumótasíðum séu óviðeigandi en sjálfsagt sé að aðstoða ferðamenn sem þurfa aðstoð vegna glæpa, handtöku eða ef einhver týnist eða andast á ferðalagi. 

Aðstoðarbeiðnirnar sem utanríkisþjónustan tekur dæmi um eru sumar hverjar kostulegar. Hjón í Kúala Lumpur leituðu til ræðismanns Bretlands og báðu um pening fyrir skólagjöldum fyrir barn sitt. Kona í Peking bað starfsfólk sendiráðs um aðstoð þar sem hún hafði keypt sér fótboltaskó sem henni þóttu síðan ekki nógu vandaðir. Í Tel Aviv gekk kona inn á skrifstofu ræðismanns og bað starfsfólk að skikka eiginmann sinn um að koma sér í betra form svo þau gætu átt börn saman. Og síðan var það ferðalangurinn í Kambódíu sem vildi aðstoð frá ræðismanni við að innheimta skaðabætur því api hafði slasað hann. 

Á síðustu 12 mánuðum hefur breska utanríkisþjónustan afgreitt yfir eina milljón af beiðnum hjá breskum ferðamönnum. Flestar komu þær frá Bretum í Suður-Evrópu. Svo margar voru beiðnirnar að opnuð var sérstök skrifstofa á Malaga á Spáni í febrúar 2011 vegna álags. 

Stikkorð: Ferðamenn  • Vandræði