*

Ferðalög & útivist 1. ágúst 2013

Undarlegasta hótel í heimi?

Sheraton mun opna hótel í þessum mánuði í Kína. Útsýnið verður ótrúlegt úr svítunum á efstu hæðinni.

Sheraton hótelkeðjan hyggst opna eitt frumlegasta hótel sitt í þessum mánuði. Hótelið, sem er í Kína, er teiknað af Ma Yansong hjá MAD arkitektum í Peking. Hótelið er mjög sérstakt í laginu eins og sjá má á myndinni hér að ofan. 

Hótelið heitir Sheraton Hot Springs Resort og rís upp úr Huzhou Taihu vatninu. Það er rétt um 100 metrar á hæð, 116 metrar á breidd og gólfflöturinn er 95 þúsund fermetrar á stærð.

Hótelanddyrið er ekkert sjoppulegt frekar en annað innanstokks en þar eru 20 þúsund Swarovski kristallar sem mynda öldu af ljósum. Gólfið er úr hvítum afgönskum steini og brasilískum eye stone.

Á hótelinu eru 27 hæðir, 321 herbergi þar af 40 svítur og 37 villur og forsetasvítur.

Hótelið er sérstaklega áberandi að kvöldi til þar sem LED ljósakerfi lýsir upp ramma hótelsins og um leið speglast það í vatninu.

Staðsetningin hefur vekið athygli en Huzhou er ekki beint í efsta sæti hjá hinum meðal ferðamanni í Kína. Svæðið er engu að síður vinsælt hjá íbúum Sjanghæ sem eru á leið í helgarferð og vilja komast út úr borginni en Huzhou er í 160 kílómetra fjarlægð frá Sjanghæ.

Huzhou er þekkt fyrir heita hveri og bambusskóga og varð heimsfrægt eftir að senur úr  kvikmyndinni Crouching Tiger, Hidden Dragon voru teknar upp á svæðinu. CNN segir frá málinu á vefsíðu sinni

 

Stikkorð: Kína  • Shanghai  • Kína  • Sheraton