*

Menning & listir 10. október 2016

Undir áhrifum íslenskra jurta

Hildur Yeoman fatahönnuður hefur undanfarið sótt mikinn innblástur í íslenskar jurtir.

Hildur Yeoman er 32 ára gömul og hefur verið í hönnun í meira en áratug. Hún hefur áhuga á listum, menningu, ferðalögum og góðum mat. Margir af hennar leikjum í barnæsku snerust ómeðvitað um hönnun svo að kringum unglingsaldurinn fór hún að kafa dýpra á því sviði.

Meðfram starfi sínu sem fatahönnuður kennir Hildur í LHÍ 2-3 kúrsa á ári. Henni finnst gaman að kenna og að vera í tengslum við starfið í skólanum.

Hver er þinn bakgrunnur sem fatahönnuður?

„Ég útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2006 úr fatahönnun og í framhaldi af því fór ég sem starfsnemi bæði til Parísar og London.“

Hvað hefur Hildur Yeoman-fatamerkið verið lengi til og af hverju undir þínu eigin nafni?

„Það var ekki meðvituð ákvörðun um að hanna undir eigin nafni í byrjun. Það þróaðist bara þannig. Þegar ég útskrifaðist frá skólanum voru tækifærin ekki mörg hér heima og ég fór að gera mitt eigið því ég hef þessa þörf til þess að skapa og það er mér eðlislægt. Ég byrjaði á því að gera aukahluti, þaðan þróaðist þetta yfir í fatnað. Þetta er búið að vera lærdómsríkt ferðalag. Það urðu kaflaskil fyrir um 2-3 árum síðan, þá breyttist fókusinn hjá mér, ég fór að framleiða erlendis og þetta varð mitt lifibrauð.“

Hvaðan sækirðu innblástur í þína vörulínu?

„Ég hef undanfarið sótt mikinn innblástur í íslenskar jurtir og verið að vinna með ákveðin seyði sem hafa mismunandi eiginleika. Úr seyðunum vinn ég svo prent. Eitt seyðanna er t.d. ástargaldurinn, (e. lovespell) en sá sem klæðist honum laðar til sín ást.“

Hvað finnst þér mikilvægast að eiga í fataskápnum fyrir veturinn?

„Fallegan kjól, hlýja kápu og góða skó í slabbið.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Eftir Vinnu sem áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast með því að smella á hlekkinn Tölublöð.