*

Menning & listir 29. október 2015

Undirbýr stórmynd um Vigdísi Finnbogadóttur

„Ég gæti trúað því að það væri gaman að vera forseti,“ segir Rakel Garðarsdóttir.

Ásta Andrésdóttir

Rakel Garðarsdóttir hefur í bígerð stórmynd um Frú Vigdísi Finnbogadóttur. Um er að ræða leikna mynd í fullri lengd og stefnt er að því að hefja tökur í byrjun árs 2017. Þetta kemur fram í Eftir vinnu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í morgun.

Nína Dögg Filippusdóttir fer með hlutverk Vigdísar, Ísold Uggadóttir leikstýrir og Margrét Örnólfsdóttir skrifar handrit. Meðframleiðandi Rakelar er Ágústa M. Ólafsdóttir.

„Þetta er sannkallað kvennaverkefni,“ segir Rakel. „Handritið er tilbúið; við erum loksins búnar að finna þennan rauða þráð sem við leituðum svo lengi að. Í myndinni verður partur úr ævi Vigdísar settur í forgrunn. Ef við ættum að gera allri ævi hennar skil þyrftu myndirnar að vera ansi margar!“

Hvers vegna mynd um Vigdísi?

„Eins og svo margir aðrir lít ég á Vigdísi með aðdáun. Hún er svo góð fyrirmynd. Ég las ævisöguna hennar sem kom út rétt eftir hrun og fylltist við það von. Hún hafði lent í svo mörgu um ævina og alltaf náð að stíga upp úr því. Undirtónninn í myndinni er þessi von. Þetta er saga um að jafnvel þótt á móti blási gengur allt upp á endanum ef þú hefur trú og von. Mig langaði afar mikið að gera kvikmynd um Vigdísi en vissi líka að hún þyrfti að fá góðan vinnslutíma. Hún yrði að vera óaðfinnanleg.

Í mínum huga á bara að gera eina mynd um Vigdísi og þetta á að vera hún. Ég leitaði til hennar og bað um leyfi og hún tók vel í það. Páll Valsson, ævisagnaritari hennar, hefur einnig verið okkur innan handar. Nína Dögg er tilvalin í titilhlutverkið og við hlökkum mikið til að hefjast handa.“

Í viðtalinu í Eftir vinnu kveðst Rakel ekki hafa hug á stjórnmálaþátttöku eins og sakir standa. „En forsetaframboð er allt annað mál – ég gæti trúað því að það væri gaman að vera forseti.“

Rakel Garðarsdóttir framkvæmdastjóri Vesturports er í ítarlegu viðtali um starfsferilinn, einkalífið, uppvaxtarárin og spennandi verkefnin fram undan í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.