*

Menning & listir 11. nóvember 2017

Unir ekki réttindabrotum þegjandi

Jón Steinar Gunnlaugsson fer yfir í nýrri bók sinni hvernig Hæstiréttur hafi brotið á réttindum sakborninga í stórum stíl.

Höskuldur Marselíusarson

„Það má segja að ég hafi haft ákveðna ástríðu fyrir að bæta dómskerfið alveg frá því að ég var yngri lögfræðingur, til að tryggja að komandi kynslóðir í þessu landi, börnin okkar, þurfi ekki að búa við jafnreikult dómskerfi og við höfum mátt búa við,“ segir Jón Steinar.

„Það er mín þrá og ég trúi ekki öðru en að Íslendingar deili henni með mér.“ Bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, Með lognið í fangið: Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun, kom út í síðustu viku, en með henni vill hann hafa áhrif til bættrar dómsýslu á Íslandi.

„Fyrri bækur mínar snúa að þessu markmiði mínu, ég gaf strax árið 1987 út bók sem laut að því og ég hef haft mikinn áhuga á því allar götur síðan að íslenskir dómstólar starfi eins og dómstólar eiga að starfa.“

Brotið á réttindum sakborninga í stórum stíl

Jón Steinar segir að brotið hafi verið á réttindum sakborninga í stórum stíl í málsmeðferð Hæstaréttar síðustu ár.

„Ég vil ekki una því þegjandi ef ég tel mig verða vitni að því, en þessu öllu lýsi ég í bókinni, tek dæmi um þetta og fer yfir það. Þetta er alveg furðulegt, það er engin önnur þjóð sem leyfir sér slíkt eins og Íslendingar hafa gert, eða eins og Hæstiréttur hefur gert,“ segir Jón Steinar sem segir að vantað hafi upp á grundvallarréttindi sakborninga á árunum eftir hrun.

„Menn sem sakaðir eru um refsiverð brot, eiga að njóta ákveðinna réttinda, réttarins til þess að verja sig, til þess að fá aðgang að gögnum og til þess að tala máli sínu. Það er verið að rýra réttaröryggi manna, til dæmis eru margir dómar þar sem verjendur sakborninga og sakborningar sjálfir hafi ekki haft óheftan aðgang að rannsóknargögnum málsins. Það er líka búið að takmarka ræðutíma, eða tímann sem aðilar fá til að verja sig fyrir réttinum og ótal fleiri dæmi. “

Jón Steinar fer yfir fjölmörg dæmi í bókinni um dóma sem hann segir að mikið vanti upp á að séu gerðir samkvæmt góðri dómsvenju. „Ég rökstyð þetta allt saman. Auðvitað lýsi ég svo eftir því ef einhver er ósammála því sem ég segi í bókinni og rökunum sem þar birtast að þá taki viðkomandi til máls, veri hann bara velkominn,“ segir Jón Steinar

Talaði yfir hundshausum

Hann sem segist hafa sótt um í Hæstarétti á sínum tíma til þess að reyna að bæta dómstólinn, en ekki hafi verið hlustað á sig þegar þangað var komið.

„Svo ég hætti strax og ég gat, þegar ég varð 65 ára, til þess að fá málfrelsi mitt aftur eins og ég sagði þeim í kveðjuræðu minni, þar sem ég talaði yfir nokkrum hundshausum,“ segir Jón Steinar sem segir reglur um skipun dómara vera gallaða.

„Ég er með hugmyndir og fjalla um það en ég tel ekki að sitjandi dómarar eigi að hafa nein áhrif á skipun nýrra dómara. Þeir eiga ekki að velja sjálfir hverjir koma inn í hópinn til þeirra en kerfið eins og það er í dag er stórgallað og satt að segja fáránlegt kerfi.

Ég get nefnt sem dæmi að vellukkaður lögfræðingur, sem alla tíð hefur verið í einu og sama starfinu, til dæmis sem málflytjandi eða sem dómari, hann fær ekki jafnmörg stig og einhver sem hefur farið milli margra sviða því hann er ómögulegur alls staðar.“