*

Sport & peningar 17. september 2015

United tapaði 7 milljörðum á að missa af Meistaradeild

Manchester United þurfti að sætta sig við talsvert tekjutap á síðasta fjárhagsári.

Tekjur enska knattspyrnufélagsins Manchester United drógust saman um 38 milljónir punda, eða um 7,5 milljarða króna, á fjárhagsárinu júní 2014 til júní 2015.  Ástæðan er fyrst og fremst sú að liðinu tókst ekki að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili og varð félagið því af miklum sjónvarpstekjum.

Tekjurnar drógust saman úr 433,2 milljónum punda í 395,2 milljónir punda, en hins vegar var slegið met í tekjum frá styrktaraðilum. Hækkuðu þær um 14,1% í 154,9 milljónir punda.

Miðasölutekjur féllu um 16% niður í 90,6 milljónir og sjónvarpstekjur drógust saman um 20% niður í 107,7 milljónir punda.

Félagið tapaði um 35 milljónum punda á því að taka ekki þátt í Meistaradeildinni, en síðasta tímabil var það síðasta af samningi félagsins við Nike um búninga. United spilar nú í Adidas búningum og fær fyrir það 750 milljónir punda á tíu ára tímabili.

United er bjartsýnt fyrir komandi ár og spáir því að tekjur verði um 500 til 510 milljónir punda. Sagði félagið að sjónvarpstekjur frá ensku úrvalsdeildinni myndu aukast um 70% í 5,14 milljarða punda fyrir tímabilin 2016/17 og 2018/19.

Þá ætlar Manchester United að reyna að safna 400 milljónum dollara með sölu á nýjum hlutabréfum, en félagið er skráð í kauphöllina í New York.