*

Menning & listir 5. nóvember 2019

Upp er boðin Sturlunga frá 1809

Bókauppboð er hafið á netinu þar sem bjóða má í Sturlungu frá 1809 og Njálu frá 1722.

Festa má kaup á fyrstu útgáfu Sturlunga sögu frá 1809 í tveimur bindum í roðskinnsbandi á bókauppboði á vefnum uppboð.is sem er afrakstur samstarfs Bókarinnar og Foldar - uppboðshúss. 

Greint er frá þessu í fréttatilkynningu en uppboðið er hafið á netinu og stendur til 17. nóvember næstkomandi.

Sturlunga er verðmetin á 150 þúsund krónur á uppboðsvefnum og er að mati uppboðshaldara verðmætasta útgáfa uppboðsins sem nú stendur yfir. Meðal sjaldgæfra bóka sem nú eru í boði er „Sagan af Niali Þorgeirssyni og sonum hans. Útgefin eftir gaumlum Skinnbókum með Konunglegu leyfi,“ eins og segir í titli bókarinnar sem gefin var út í Kaupmannahöfn árið 1772. 

„Mikið er af fallegum og fágætum ljóðabókum, m.a. eftir Dag Sigurðarson, Einar Ben, til að mynda hans fyrsta bók í góðu ástandi og Stein Steinarr. Ljóða-bók eftir Hannes Hafstein, sem var hans fyrsta bók er einnig boðin upp í vönduðu skinnbandi. Reyndar er það svo að margar bókanna sem boðnar verða upp hafa verið sérstaklega bundnar inn af bókbandsmeisturum. 

Þá verða boðnar upp gamlar bækur, t.d. Island og dets Justitiarius Magnus Stephensen sem kom út 1827 og er fágæti en einnig bók sem kom út í Viðey og Magnús Stephensen er einnig höfundur hennar en heiti hennar er Athugaverdt vid Sætta-Stiptanir og Forlíkunar-Málefni á Islandi. Handqver Embættismanna, Sættanefnd Lögfræði, frá 1819. Þá eru allar þrjár bækur Bjarna Sæmundssonar boðnar upp saman en þær eru allar bundnar í sérband,“ segir í fréttatilkynningunni.  

Stikkorð: Bækur  • Uppboð  • Listir  • Lestur