*

Hitt og þetta 22. október 2013

Uppáhaldsstaðir Marilyn Monroe

Spagettístaður, lúxushótel og vegasjoppa voru á meðal uppáhaldsstaða Marilyn Monroe.

Í tilefni frumsýningar myndarinnar „Love, Marilyn“ í breskum kvikmyndahúsum voru staðir, sem höfðu mikla merkingu í huga leikkonunnar Marilyn Monroe, teknir saman í grein í The Telegraph

Fjölmargir staðir eru nefndir í greininni, meðal annars veitingastaðir, hótel og heimili leikkonunnar. Þar á meðal Palm Springs í Kaliforníu. Hún hafði mikið dálæti á þeim stað þar sem hún bjó með öðrum eiginmanni sínum, Joe DiMaggio hafnaboltamanninum fræga. Í nágrenninu bjuggu líka Elvis Presley, Elizabeth Taylor og Frank Sinatra.

Marilyn bjó líka oft á Hollywood Roosevelt hótelinu í Kaliforníu. Fyrsta Óskarsverðlaunahátíðin var haldin á hótelinu árið 1929. Síðan Marilyn lést árið 1962 hafa hótelgestir og starfsfólk sagst hafa séð ljóshærða konu, sem svipar til Marilyn, í speglinum á svítunni sem hún gisti alltaf í. Fólk hefur einnig sagst finna fyrir nærveru hennar við sundlaugina þar sem hún sat fyrir í myndatöku árið 1951.

Veitingastaðurinn Rainbow Bar and Grill hét eitt sinn Villa Nova og er á Sunset Boulevard. Á þeim veitingastað hittust hún og DiMaggio á blindu stefnumóti árið 1952. Þau sátu í bás aftarlega í veitingasalnum og gæddu sér á spagettí. Enn þann dag í dag kemur fólk á veitingastaðinn og biður um að fá „Marilyn-básinn“.

 

 

 

 

 

Stikkorð: Marilyn Monroe  • Joe DiMaggio