*

Tíska og hönnun 12. júlí 2019

Uppboð á fágætustu strigaskóm heims

Vænta að lágmarki 20 milljónum króna fyrir suma af þeim 100 eintökum af strigaskóm sem verða á Sotheby´s uppboðinu.

Sotheby´s uppboðshúsið í New York hefur tilkynnt um fyrsta uppboð sögunnar á strigaskóm, þegar 100 pör af fágætustu strigaskóm sem nokkurn tíman hafa verið framleiddir verða boðnir upp. Er lágmarksmatið á verðmætustu skónum um 160 þúsund dalir, eða sem samsvarar 20,2 milljónum króna.

Eru það svokallaðir tunglskór, sem líkjast skónum sem Appollo tunglfararnir notuðu á tunglinu, en einungis voru framleidd 12 eintök af þeim á sínum tíma, fyrir hlaupara í undirbúningi fyrir ólympíuleikana 1972. Parið sem um er rætt er handsaumað, og hannað af Bill Bowerman, hlaupaþjálfara sem var annar stofnanda Nike.

Aðrir fágætir strigaskór sem verða boðnir upp eru meðal annars Aftur til framtíðar (en. Back to the Future) útgáfur af skóm sem byggðu á þeim sem aðalleikarinn í myndinni, Michael J. Fox klæddist þegar hann fór til framtíðar, eða ársins 2015.

Er þess vænst að skórnir, sem framleiddir voru árið 2016, og innihalda sjálfreymingarbúnað líkt og þar var sýnt, fari á að milli 50 til 70 þúsund dali, eða allt að 9 milljónir króna. Einnig verða takmarkaðar útgáfur af Adidas skóm, Air Jordan og Yeezy vörulínu rapparans Kanye West.

Hingað til er hæsta verð sem talið er hafa fengist fyrir strigaskó 190.373 dalir fyrir Converse skó sem Michael Jordan er sagður hafa verið í á lokaleik ólympíuleikanna árið 1984, að því er Guardian segir frá.

Stikkorð: strigaskór  • Bill Bowerman  • Air Jordan  • Sotheby´s