*

Bílar 9. febrúar 2020

Uppfærður Forester með hybrid-kerfi

Nýr Forester-jepplingur frá Subaru fæst nú sem tvinnbíll, en rafdrægið er stutt og engin hrein rafstilling.

Guðjón Guðmundsson

Subaru hefur í fyrsta sinn sett á markað Forester jepplinginn með tvinnvél – hybrid. Samsetningin er þekkt, bensínknúin vél og lítill rafmótor, og flestir bílaframleiðendur hafa kynnt sínar útfærslur af slíkum bílum. Það sem aðgreinir Forester e-Boxer frá öðrum er „boxer“ vélin sem Subaru hefur verið þekkt fyrir að nota í bíla sína í yfir hálfa öld. Annar framleiðandi sem notar boxer vélar í suma af sínum bílum er Porsche en Subaru fæst eingöngu með þessari vélargerð. Kosturinn við þessar flötu vélar er lægri þyngdarpunktur, jafnari hröðun og minni vélartitringur.

Mikið innanrými
Þetta finnst vel í nýjum e-Boxer sem var prófaður á dögunum. Hann er viðbragðsþýður og hljóðlátur og er hlaðinn nýjustu tækni í grunngerðinni. Hann er kannski ekki laglegastur allra í útliti með sitt fremur kassalaga form og háa grill. Þetta byggingarlag hefur samt sinn ótvíræða kost sem er mikið innanrými ásamt stórum gluggaflötum sem hleypa birtu inn í farþegarýmið.

Lítið rafakstursdrægi
Vélin er 2 lítrar að slagrými og tengd litlum rafmótor sem veitir hjálparafl. Þetta er svipað kerfi og Toyota og Lexus styðjast við. Aflrásin skilar 150 hestöflum. Ókosturinn við kerfi Subaru er lítið drægi fyrir rafmagni og sú staðreynd að enginn „EV“ rofi fylgir til að stilla á hreinan rafakstur.

Aflrásin er tengd við reimdrifna sjálfskiptingu, svokallaða CVT-skiptingu sem er með flipaskiptingu í stýri. Allt virkar þetta vel en e-Forester er samt ekki með aflmestu valkostunum í sínum flokki. Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km hraða er 11,8 sekúndur. En þetta er lipur bíll og stöðugur á veg þrátt fyrir að vera hábyggður og með 22 cm veghæð.

Flöt boxer-vélin og staðsetning á stóra rafgeyminum rétt fyrir framan afturöxulinn gerir það að verkum að þyngdardreifingin er ákjósanleg og þyngdarpunkturinn lágur sem skilar sér í frábærum aksturseiginleikum innan borgarinnar.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.