*

Bílar 3. október 2018

Uppfærður Outlander PHEV

Mestu breytingarnar á bílnum eru tæknilegs eðlis en útlitslega er hann nánast óbreyttur.

Nýr og uppfærður Mitsubishi Outlander PHEV var frumsýndur hjá Heklu um síðustu helgi. Mestu breytingarnar á bílnum eru tæknilegs eðlis en útlitslega er hann nánast óbreyttur. 

Outlander PHEV hefur notið mikilla vinsælda frá kynningu hans árið 2013 og hefur haft talsverða yfirburðastöðu í sölu tengiltvinnbíla hér á landi. Vinsældirnar eru hins vegar ekki bundnar við Ísland eitt, því Outlander PHEV hefur nú selst í vel yfir 100.000 eintökum í Evrópu frá því að hann var kynntur til leiks. 

Þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á nýjum Outlander PHEV eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og snúa að meiri sparneytni og afkastagetu. Þessi fjórhjóladrifni sportjeppi en nú sparneytnari og afkastameiri en áður með endurbættu aldrifi. Þá hafa aksturseiginleikar bílsins verið bættir.

Snjóstilling er nýjung sem mun án efa falla í kramið hjá Íslendingum en hún auðveldar bílnum að taka af stað og beygja þegar grip er lítið á sleipu yfirborði.