*

Tölvur & tækni 1. febrúar 2012

Uppgjör netverslunarinnar Amazon undir væntingum

Bloomberg segir það eðlilegt að fjárfestar velti fyrir sér hvort gengi hlutabréfa fyrirtækisins sé ekki of hátt í skugga lélegrar afkomu.

Fjárfestar vestanhafs voru ekki ánægðir með uppgjör bandarísku netverslunarinnar Amazon á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins nam aðeins 177 milljónum dala samanborið við 416 milljónir á sama tíma ári fyrr. Hagnaðurinn jafngildir 38 sentum á hlut í fyrra samanborið við 91 sent árið áður. Helsta ástæðan fyrir því að hagnaðurinn dróst svo mikið saman er hægari sala á Kindle-lesbrettum og fleiri hlutum sem verslunin býður upp á en greiningaraðilar bjuggust við. Leikjasala fyrirtækisins var mun minni en búist var við.

Tekjur Amazon-verslunarinnar námu 17,4 milljörðum dala á fjórðungnum sem er nokkuð undir væntingum. Meðalspá Bloomberg hljóðaði upp á 18,3 milljarða dala. Niðurstaðan var hins vegar 5% lægri. Væntingar stjórnenda Amazon til uppgjörsins á fyrsta ársfjórðungi eru ekki efnilegar en búist er við að reksturinn geti skilað allt frá 200 milljóna dala tapi og upp í 100 milljóna dala hagnað.

Er gengi Amazon of hátt?

Gengi hlutabréfa Amazon féll um rúm 7,9% þegar uppgjör Amazon var birt eftir lokun markaða vestanhafs í gær. Það hafði hækkað um 15% síðastliðna 12 mánuði á undan og því ljóst að hluthafar hafi horft upp á gengishækkun á hálfu ári gufa upp á nokkrum augnablikum. Bloomberg segir fjárfesta eðlilega velta því fyrir sér í skugga afkomunnar hvort gengi hlutabréfa fyrirtækisins séu ekki of dýru verði keypt. Markaðsverðmæti fyrirtækisins jafngildir 141,9-földum tekjum á síðastliðnum tólf mánuðum og þykir það í hærri kantinum. 

Stikkorð: amazon.com  • Jeff Bezos