*

Sport & peningar 8. júní 2014

Upphitun fyrir HM: Bayern München á flesta fulltrúa

Lang flestir leikmenn heimsmeistarakeppninnar leika með félagsliði á Englandi.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hefst á fimmtudaginn. The Guardian hefur tekið saman tölfræði yfir ýmislegt sem tengist keppninni. Á VB.is í gær var farið yfir nokkur atriði sem tengjast aldri og reynslu leikmanna en nú er komið að því að skoða hvaðan leikmennirnir koma.

Bayern München er það félagslið sem á flesta fulltrúa á heimsmeistaramótinu þetta árið. Alls keppa fimmtán leikmenn frá Bayern á mótinu. Fast á hæla fylgir Manchester United sem á fjórtán fulltrúa og síðan kemur Barcelona með þrettán. Alls eru ellefu félagslið sem eiga tíu eða fleiri fulltrúa á mótinu, þar af fimm ensk úrvalsdeildarfélög. Þrátt fyrir að stærstu lið heims eigi marga leikmenn á mótinu þá eiga þau minni einnig sína fulltrúa. Í því samhengi má nefna að ensku félögin Swindon og Preston eiga sitt hvorn fulltrúann á mótinu en liðin leika í þriðju efstu deild.

Þegar litið er til þess í hvaða löndum flestir leikmenn heimsmeistaramótsins spila kemur í ljós að England sker sig úr hvað það varðar. Alls koma 119 leikmenn mótsins úr enskum deildum. Í öðru sæti er ítalska deildin sem á 81 fulltrúa og fast á hæla fylgir sú þýska með 78.

Loks er áhugavert að líta á hvaða landslið eiga flesta leikmenn sem spila með félagsliðum í heimalandinu. Rússland trónir þar á toppnum en allir leikmenn liðsins spila með rússnesku félagsliði. Í öðru sæti kemur England en einungis einn leikmaður liðsins spilar ekki í heimalandinu. Lang stærstur hluti ítalska liðsins spilar einnig með félagsliði í heimalandinu eða 20 leikmenn. Leikmenn Gana, Fílabeinsstrandarinnar, Úrúgvæ og Bosníu leika hins vegar nánast allir með erlendu félagsliði. Einungis einn leikmaður hvers liðs spilar í heimalandinu.

Stikkorð: Fótbolti  • HM 2014