*

Veiði 2. október 2015

Upprisa Laxár í Dölum

Veiðin í Laxá á Dölum sexfaldaðist á milli ára. Maðkveiði er nú bönnuð og kvótinn hefur verið minnkaður.

Trausti Hafliðason

Alls veiddust 1.578 laxar í Laxá í Dölum í sumar. Í fyrra var veiðin óvenju döpur, eins og reyndar víða um land, og veiddust 216 laxar í ánni. Stökkið milli ára er því risavaxið, aukningin milli ára nemur ríflega 600%.

Veiðifélagið Hreggnasi, sem nú er með ána á leigu, hefur bannað maðkveiði og minnkað kvótann úr 10 löxum á stöng á dag í 2.
Jón Þór Júlíusson er framkvæmdastjóri Veiðifélagsins Hreggnasa. „Við tókum við ánni í fyrra og veiðin var auðvitað ekki góð frekar en víða annars staðar, en fall er fararheill," segir hann. „Við gleðjumst auðvitað yfir þessum mikla viðsnúningi sem orðið hefur."

Á árunum 2003 til 2010 veiddust að meðaltali 1.547 laxar í Laxá í Dölum á ári. Eftir þetta góða tímabil tók veiðin dýfu og á árunum 2011 til 2014 veiddust að meðaltali 466 laxar í ánni. Þegar veiðitölur eru skoðaðar lengra aftur í tímann kemur í ljós að á síðustu 40 árum hefur áin verið að skila 1.024 löxum að meðaltali á ári. Veiðin í sumar er því langt yfir þessu meðaltali.

Nánast allt drepið

Jón Þór segir að mikið hafi verið drepið af laxi í Laxá í Dölum áður en Hreggnasi hafi tekið við og sett stífar reglur. Nú ber veiðimönnum að sleppa öllum stórlaxi og kvótinn hefur verið minnkaður úr 10 löxum á stöng á dag í 2.  Veiðimenn mega veiða og sleppa eftir að kvótanum er náð.  Þá hefur öll maðkveiði verið bönnuð. Hreggnasi fækkaði einnig stöngum í byrjun tímabilsins. Nú er veitt á 4 stangir út júlí og síðan á 6. Þá var opnun árinnar seinkað. Hún var lengi opnuð í kringum 20. júní, síðan 24. og 26. júní. Síðustu tvö ár hefur áin opnað 1. júlí.

„Ég hugsa að í 20 til 30 ár hafi um 95% eða meira af laxi verið drepinn Laxá í Dölum. Veitt var á maðk frá opnun og til 20. júlí og síðan aftur frá 20. ágúst og út veiðitímann. Það var sem sagt verið að veiða á flugu þegar skilyrðin voru að mörgu leyti hvað erfiðust  — sól, og lækkandi vatnsstaða. Fluguveiðin fékk aldrei tækifæri síðsumars.

Ég reikna með að af þessum 1.578 löxum, sem veiðst hafa sumar, séu um 300 endurveiddir, fiskar sem veiðast oftar en einu sinni. Kvótinn og reglurnar um að sleppa stórlaxi eru án efa að skila sér. Þetta er gjörbreytt landslag núna. Það var ekkert mjög spennandi hér áður að mæta 21. júlí með fluguna. Þá var búið að veiða á maðk frá opnun og hreinsa upp ána, jafnvel drepa flottu tveggja ára hrygnurnar. Þær voru bara ofan í frystikistu hjá einhverjum og fengu því aldrei tækifæri til að hrygna."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangaveiði  • laxveiði