*

Veiði 15. september 2018

Upprisa Selár í Vopnafirði

Eftir hamfaraflóð árið 2013 sem hafði mikil áhrif á lífríki Selár er áin nú að rétta úr kútnum.

Trausti Hafliðason

Selá í Vopnafirði er ein af perlum íslenskra laxveiðiáa. Áin á upptök 55 kílómetra inni í landi, í Selárbotnum, suður af Botnafjallagarði. Eftir að laxastigi var gerður við Efri-Foss árið 2011 er veiðisvæðið nú um 46 kílómetra langt. Fyrir utan eina viku í byrjun ágúst, þar sem veitt er á átta stangir, er veitt á sex stangir í Selá.

Eftir hamfaraflóð sumarið 2013 hefur Selá hægt og rólega verið að ná vopnum sínum. Rennsli í Selá er að jafnaði um 10 rúmmetrar á sekúndu en þetta sumar fyrir fimm árum fór rennslið í rúmlega 270 rúmmetra á sekúndu. Svona risaflóð geta haft mikil áhrif á seiðabúskap í ám. Seiðin mega sín lítils í vatnselgnum og skolast út í sjó. Veiðitölur í Selá síðustu ár endurspegla þetta en nú virðist sem áin sé að ná sér vel á strik því veiðst hafa rúmlega 1.300 laxar í ánni sem er mesta veiði frá árinu 2013.

„Það er enginn á því að þetta flóð hafði mikið að segja um veiðina næstu ár á eftir,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs, sem er með Selá á leigu. „Maður sér núna að áin er farin að rétta úr kútnum. Þó að áin hafi farið í gegnum niðursveiflu síðustu ár þá hefur veiðin samt bara mest farið niður í rúmlega 800 laxa, sem eru ríflega 100 laxar á stöng yfir allt tímabilið eða einn á dag á hverja stöng. Miðað við meðalveiði í Selá þá eru að veiðast um þrír laxar á stöng á dag, sem þýðir að veiðimenn hafa sett í einn eða tvo til viðbótar og reist nokkra aðra. Þannig viljum við auðvitað hafa það.“

Vel haldnir laxar

Gísli segir að í sumar hafi veiðin í júlí hafi verið mjög góð en það sem hafi ráðið úrslitum um að veiðin hafi farið yfir þúsund laxa hafi verið að í ágúst hafi veiðst mjög vel. Undanfarin ár hafi ágústmánuður verið mjög erfiður.

„Selá mun væntanlega fara vel yfir 1.300 laxa en tæplega mun hún ná 1.400. Það er reyndar nóg af laxi í ánni þannig maður skyldi aldrei segja aldrei. Hlutfall stórlaxa hefur verið gott í sumar. Það hefur verið mikið af sjötíu til áttatíu og fimm sentímetra löxum og það sem einkennt hefur laxana er hversu rosalega vel haldnir þeir hafa verið. Í heildina var smálaxagangan alveg þokkaleg. Við fengum góða gusu af smálaxi um mánaðamótin júlí og ágúst. Það fór mikið magn af seiðum út síðasta vor og því verður mjög spennandi að sjá hvort við fáum sterkar smálaxagöngur á næsta ári.“

Hnýtt á eyrnapinna

Að sögn Gísla hafa laxarnir í sumar mest verið að taka litlar flugur eða frá krókastærð 14 og upp í 18. Hann segir að flugurnar hans Sigurðar Héðins Harðarsonar leiðsögumanns, sem í veiðiheiminum er aldrei kallaður annað en Siggi haugur, hafi gefið vel og nefnir flugur eins og Von og Skugga og þá sérstaklega útfærslu af Skugga sem hnýtt sé á mjótt rör. Þá hafi flugurnar hans Sveins Björnssonar, eða Denna eins og hann er oftast kallaður, einnig gefið vel. Gísli segir að Denni hafi meðal annars hnýtt flugur á eyrnapinna sem hafi reynst nokkuð vel.

Rúmt um veiðimenn

Gísli segir að varla sé hægt að komast í fjölbreyttari veiðiá en Selá.

„Það sem gerir hana ekki hvað síst skemmtilega er að veiðimenn hafa mjög stór svæði út af fyrir sig. Á hverju veiðisvæði hafa veiðimenn endalaust af hyljum, strengjum og breiðum til að velja úr og þeir fá ekki á tilfinninguna að þeir standi í sporum þeirra sem voru á svæðinu á undan þeim. Upp að Efri- Fossi eru um 27 kílómetrar frá ósi en eftir að laxastiginn var tekinn í notkun er veiðisvæðið tæknilega um 46 kílómetra langt, sem er svona svipuð vegalengd og frá Seltjarnarnesi að Selfossi. Veiðisvæðið fyrir ofan fossinn er ekki jafnmikið stundað og svæðið fyrir neðan en samt hafa nú komið um tíu laxar á land þar og sjötíu laxar farið í gegnum teljarann í stiganum.“

Að sögn Gísla hefur sala veiðileyfa í Selá gengið mjög vel og segir hann að nánast uppselt sé í ána næsta sumar. Hann segir að bæði styrking krónunnar og Brexit hafi haft töluverð áhrif á rekstur Strengs. Vegna þessa hafi tekjur dregist saman um 30%.

„Maður þarf að hafa sterk bein til að reka fyrirtæki í þessu umhverfi. Þetta hefur slegið okkur illa.“ 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Laxveiði  • Selá