*

Bílar 12. nóvember 2018

Úr fatageiranum í lúxusbíla

Hermann Hauksson tók nýverið við sem sölustjóri Lexus.

Róbert Róbertsson

Hermann Hauksson, sölustjóri Lexus, byrjaði í fatabransanum hjá Sævari Karli fyrir 14 árum og margir sem muna eftir honum þar.

,,Það var gaman að vinna með Sævari Karli enda mikill meistari og fagmaður. Hann kunni þessa iðn upp á 10. Hann var góður lærimeistari. Ég fór síðan yfir í Boss búðina og starfaði með frábæru fólki þar. Ég var aðstoðarverslunarstjóri og var einnig í innkaupum. Ég starfaði í fimm ár í Boss búðinni áður en ég færði mig yfir til Lexus núna í lok sumars. Það var á margan hátt erfið ákvörðun að hætta í Boss búðinni en ég tek við spennandi og krefjandi starfi hjá Lexus. Ég hef unnið með mjög fín merki í fatageiranum í gegnum tíðina og nú tek ég við lúxusmerki í bílageiranum. Það er meiri ábyrgð hér hjá Lexus og þetta er fjölbreytt starf," segir Hermann.

Hann segir að það sé margt svipað í þessum tveimur geirum.

,,Sölumennska snýst fyrst og fremst um kurteisi og almennilegheit og ég tala nú ekki um þegar maður starfar hjá merkjum eins og Lexus og áður Boss og Sævari Karli. Ég hef selt Dolce & Gabbana, Boss og fleiri mjög flott merki í fatnaði. Allt snýst þetta  á endanum um að kúnnunum líði vel. Það á að vera upplifun að koma hingað inn. Við erum með mjög fallegan sal hér hjá Lexus sem skiptir mjög miklu máli. Við bjóðum viðskiptavinum í kaffi og konfekt og salurinn er eins og falleg stofa. Það er gaman að margir viðskiptavinir koma hingað og spjalla. Þeir segja okkur hér jafnvel frá síðasta golfhringnum eða hvað annað þeir voru að bralla."

Spennandi tímar framundan

,,Lexus er eitt flottasta lúxusbílamerkið á markaðnum og er með flotta línu bæði í jeppum og fólksbílum. Við erum með hina glæsilegu sportjeppa RX og NX og síðan með CT, IS og LS og sportbílana RC og LC. Framundan eru spennandi tímar en Lexus er að koma á markað með nýja UX og ES sem mikil eftirvænting ríkir eftir.

Lexus er með frábæra þjónustu og það skiptir fyrirtækið öllu máli," segir hann. ,,Ég er enginn bílakall og hef raunar enga þekkingu í þeim bransa þótt ég sé að læra mikið á þeim tíma sem ég hef unnið hér. Ég læt öðrum í fyrirtækinu eftir að sjá um tæknimálin. Ég get sett rúðupiss á bílinn og líklega get ég skipt um dekk. En mitt hlutverk er fyrst og fremst að tryggja að viðskiptavinurinn fái bestu þjónustuupplifun sem völ er á."

Aðspurður um eftirminnilegustu bíla sem hann hefur sjálfur átt svarar hann:

,,Fyrsti bíllinn sem ég átti var BMW 318 árgerð 1987. Þetta var flottur bíll og síðan eignaðist ég Toyota Corolla árgerð 1996 sem var í miklu uppáhaldi. Þetta var hlaðbaksútgáfa af Corolla sem reyndist mér mjög vel en ég átti hann mjög lengi."

Körfuboltafjölskylda

Hermann á að baki fjölda landsleikja í körfubolta en hann lék lengst af sínum ferli með KR.

,,Ég ólst upp hjá ÍR en lék lengst af með KR. Ég fór í atvinnumennsku í Belgíu í eitt ár og lék einnig tvö tímabil með Njarðvík. Báðir synir mínir eru á fullu í körfunni. Sá eldri Martin leikur með Alba Berlín sem er eitt stærsta lið Evrópu í körfubolta. Hann hefur tvö síðustu ár verið valinn körfuboltamaður Íslands. Ég er mjög stoltur af því. Við erum einu feðgarnir á Íslandi sem höfum báðir fengið þann titil að vera valdir bestu leikmenn hér heima. Yngri sonurinn Arnór leikur með Breiðabliki og síðan er dóttirin Anna Margrét líka í körfuboltanum. Það er því mikið rætt um körfu á heimilinu eins og gefur að skilja," segir Hermann en þess má geta að eiginkona hans, Margrét Elíasdóttir, sem starfar á skrifstofu KSÍ, og var á fleygiferð í handbolta á sínum yngri árum og lék þá með Fram.

Hermann er sérfræðingur í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 og hefur verið þar sl. 4 ár.

,,Það er mjög skemmtilegt og gefur manni tækifæri að spjalla um körfuna. Kjartan Atli stýrir þættinum af stakri prýði. Við mætum síðan tveir sjálfskipaðir sérfræðingar í hvern þátt og rífum kjaft," segir hann og glottir.

Nánar má lesa um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Lexus  • Hermann Hauksson