*

Matur og vín 28. nóvember 2014

Úr lögfræði í matreiðslu

Pétur Hrafn Hafstein lauk BA námi í lögfræði en eftir það lá leiðin til Parísar þar sem hann lærði matreiðslu.

Edda Hermannsdóttir

Eftir hafa lokið rúmum þremur árum í laganámi tók lífið óvænta stefnu hjá Pétri Hrafni Hafstein. Hann venti kvæði sínu í kross, lagði lögfræðibækurnar á hilluna og hélt til Parísar með fjölskyldu sinni í matreiðslunám. Starfsumhverfi hans í dag er heldur frábrugðið lögfræðistofu en hann vinnur langar vaktir á Kaffihúsi Vesturbæjar þar sem hann sér um eldhúsið í húsi sem afi hans lét reisa. Áhuginn á matreiðslu kviknaði þó snemma hjá Pétri. Samhliða laganáminu eyddi hann löngum stundum í eldhúsinu.

„Ég byrjaði 2008 í Háskóla Íslands. Námið gekk vel og ég hafði mikinn áhuga. Þetta nám var það eina sem mér fannst koma til greina. Ég lokaði mig eiginlega inni í þrjú ár. Þegar ég var síðan að klára BA-námið eignaðist ég dóttur mína og þá breyttist eitthvað. Þá hafði ég ekki lengur tíma til að einbeita mér svona mikið að lögfræðinni og fannst það óþægilegt. Það er auðvitað galli hjá mér. Þá fór ég að vera meira í eldhúsinu.“

Þegar sex mánaða náminu lauk í París tók við leit að veitingastað til að klára verknámið. Til stóð að fjölskyldan myndi vera þar í borg í nokkur ár en þær áætlanir breyttust aðeins. „Ég hefði alveg viljað vera áfram í París. En það er eitt að vera í París og annað að vera í París með barn. Ég fór í prufur á tveimur veitingastöðum, á Michelin-stað og öðrum rólegri stað. Það var mikil reynsla og alveg magnað. Maður hélt að skólinn væri erfiður, en þar skjátlaðist manni. Það var ótrúlegt að taka vaktir á Michelin-staðnum og gott ef ég fór ekki heim grátandi.“

Nánar er spjallað við Pétur Hrafn í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.