*

Bílar 30. september 2015

Úr traktorum í ofursportbíla

Feruccio Lamborghini stofnaði sportbílaverksmiðjuna Lamborghini árið 1964 vegna óánægju með Ferrari-inn sinn.

Ferruccio Lamborghini fæddist í litlu þorpi í nágrenni Bologna árið 1916. Hann hafði frá upphafi mikinn áhuga á tækni- og vélbúnaði. Eftir tækninám sá hann um viðhald ökutækja ítalska hersins á eynni Ródos á Grikklandi.

Eftir stríðið stjórnaði Ferruccio lítilli verksmiðju sem framleiddi æfingatæki fyrir ítalskar fegurðardísir. Hann skrifar í endurminningum í tilefni af 20 ára afmæli Lamborghini árið 1984, að þetta hafi verið vondur bisness því skortur var á mat og engin hætta á ofáti. Hann hafði því nægan frítíma að vinna í Fiat 500 Topolino bifreið sem hann notaði í kappakstri. Hann breytti bílnum mikið til að ná fram meiri krafti.

Eftir seinna stríð var mikill skortur á landbúnaðartækjum. Þá byrjaði Ferruccio að kaupa notaða herbíla og breyta þeim í dráttarvélar. Árið 1948 hóf hann framleiðslu á dráttarvélum undir merkjum Lamborghini Trattori sem eru enn framleiddar. Áratug síðar hóf hann einnig framleiðslu á loftkælingum og olíubrennurum.

„Ferrari, bílarnir þínir eru rusl“

Ferruccio keypti sinn fyrsta Ferrari árið 1958, 250GT Pininfarina coupe, og átti eina 3-4 Ferrari. Þetta voru að hans mati bestu bílar sem hann hafði átt, utan Mercedes 300SL. Einnig átti hann tvo 250GT Berlinetta og 250GT 2+2.

Í viðtali sem var tekið árið 1991 segir Ferruccio að allir Ferrari sportbílarnir sínir hafi verið með lélega kúplingu. Hún virkaði ágætlega þegar keyrt var rólega en þegar ekið var ákveðið þá þoldi kúplingin það ekki. Eftir margar ferðir í höfuðstöðvar Ferrari í Maranello til að láta endursmíða eða endurnýja kúplinga gafst Ferruccio upp. Hann óskaði því eftir fundi með sjálfum Enzo Ferrari, en þurfti að bíða lengi. Loks þegar Enzo hafði tíma, þá sagði Ferruccio „Ferrari, bílarnir þínir eru rusl.“ Enzo brjálaðist og svaraði: „Lamborghini, það kann að vera að þú getir ekið dráttarvél, en þú munt aldrei geta ekið Ferrari vel.“

Það hafði blundað í Ferruccio að framleiða sportbíla. Á þessum tímapunkti tók hann ákvörðun um að gera það. Fyrst breytti hann einum Ferrari bíl, setti sterkari kúplingu í hann og endurbætti vélina. Svo lék hann sér að því að bíða eftir tilraunaökumönnum frá Ferrari á hraðbrautinni rétt fyrir utan Modena. Þegar þeir voru komnir á 230-240 km hraða fór hann fram úr þeim, því hans bíll komst 25 km hraðar á klukkustund. Þegar tilraunaökumenn Ferrari spurðu hann hvað hann hafði gert við bíllinn svaraði hann: „ég veit það ekki“ með bros á vör.

Nánar má lesa um sögu Feruccio Lamborghini í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.