*

Sport & peningar 8. febrúar 2021

Úrslit Super Bowl gleðja Wall Street

Super Bowl vísirinn var upphaflega háðsádeila á ofurtrú fólks á tölfræði en hann hefur reynst sannspár í 74% tilfella síðustu 54 ár.

Ef eitthvað er að marka svokallaðan Super Bowl vísi, er gott ár í vændum á bandarískum hlutabréfamarkaði eftir sigur Tom Brady og félaga hans í Tampa Bay Buccaneers í Super Bowl í nótt. Samkvæmt umfjöllun Forbes hefur vísirinn reynst sannspár 40 sinnum síðustu 54 ár, eða í 74% tilfella.

Super Bowl vísirinn gefur til kynna að hlutabréfamarkaður vestanhafs hækki þau ár sem sigurliðið í Super Bowl á rætur að rekja til NFL deildarinnar fyrir sameiningu hennar við AFL deildina árið 1970.

Kenningin var fyrst sett fram árið 1978 af íþróttafréttamanni New York Times, Leonard Koppett. Koppett heitinn setti vísinn fram sem háð að tilhneigingu fólks til að leggja frekar trú á tölfræði en raunverulegar upplýsingar. Þannig benti hann á að undanfarin ellefu ár hafi verið hundrað prósent fylgni milli þróunar hlutabréfamarkaðs og sigurvegara Super Bowl, en það hefði enga þýðingu þar sem ekkert orsakasamhengi sé til staðar.

Þrátt fyrir að Koppett gæfi lítið fyrir fylgnina náði vísir hans mikilli útbreiðslu og hefur verið viðloðandi umfjöllun um Super Bowl allar götur síðan, þróun sem Koppett segir vera rökhugsun til skammar.

Undanfarin ár hefur hallað undan fæti Super Bowl vísisins, en hann hefur ekki reynst sannspár frá árinu 2015. Fáir taka enda forspárgildi hans alvarlega, en vísirinn er sagður gott dæmi um það að ef leitað er að fylgnisamböndum, þá finnist þau, óháð orsakasamhengi. Fólk hafi tilhneigingu til að sjá mynstur þrátt fyrir að þau séu ekki til staðar.