*

Veiði 9. september 2017

Úrslitastund í Stóru-Laxá

Stóra-Laxá í Hreppum er af mörgum talin fallegasta laxveiðiá á Íslandi.

Trausti Hafliðason

Frá aldamótum hafa að meðaltali veiðst 588 laxar á ári í Stóru-Laxá. Ársveiðin hefur mest farið í 1.776 laxa en það var árið 2013. Fyrir utan stórbrotna náttúru er eitt sem einkennir Stóru-Laxá umfram aðrar ár en það er að mjög stór hluti heildarveiðinnar er í september. Sem dæmi þá höfðu veiðst 175 laxar í ánni þann 27. ágúst árið 2014 en þegar yfir lauk var heildaraflinn 882 laxar. Í fyrra og árið 2015 kom um helmingur aflans á land í september.

Stóra-Laxá er mögnuð á. Hún fellur úr Grænavatni, niður á milli Hrunamanna- og Gnúpverjahrepps, og í Hvítá hjá Iðu. Stóra-Laxá er 90 kílómetra löng dragá. Veiðisvæðið teygir sig ansi langt upp í Laxárgljúfur en þar sem náttúran mikilfengleg og hrikaleg. Veiðimenn þurfa því að fara sérstaklega varlega á því svæði.

Tveir stofnar

Segja má að í Stóru-Laxá séu tveir laxastofnar. Annar gengur upp í ána á vorin en hinn á haustin. Á sínum tíma var gengið ansi nærri snemmgengna stofninu, sem þýddi að fáir laxar voru í ánni yfir sumartímann. Þetta hefur breyst og líklega má rekja breytinguna til þess að árið 2011 var veiðireglum breytt. Aðeins var leyft að veiða á flugu og mjög stífur kvóti settur. Þá var skylt að sleppa öllum laxi á svæði IV. Í dag eru reglurnar þannig að veiðimenn mega taka einn lax á dag nema á svæði IV í september.

Esther Guðjónsdóttir, formaður veiðifélags Stóru-Laxárdeildar, segir að sem betur fer sé veiðin orðin betri yfir sumartímann en hún var.

„Laxinn byrjar jafnvel að ganga í maí," segir Esther. „Í sumar byrjaði veiðin mjög vel í júlí. Síðan komu þurrkar, sem er ekki óvenjulegt, og þá datt veiðin aðeins niður. Nú er vatnið í ánni að aukast og samfara því eykst veiðin. Það sem hefur breyst á síðustu árum er að hlutfall stórlaxa er að aukast. Á hverju ári veiðast yfir 100 sentímetra langir laxar og margir yfir 90.  Veiða og sleppa fyrirkomulagið virðist vera að skila sér."

Fyrir viku síðan voru 330 laxar komnir á land í Stóru Laxá, sem er mjög svipað og á sama árstíma árið 2016 og 2015.  Esther segir að veiðin á svæði IV hafi verið mjög góð, það sem af sé sumri og nánast á pari við veiðina á svæði I og II, sem er annars langbesta veiðisvæði árinnar.

Esther segist binda vonir við að veiðin verði góð í september. „Það spáir rigningu og það er það sem áin þarf. Laxinn bíður færi niður í Hvítá og um leið og leið og vatnið eykst þá leggur hann af stað."

Allir agndofa

Arnar Tómas Birgisson leiðsögumaður var staddur í veiðihúsinu á svæði III í Stóru-Laxá þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum í á þriðjudaginn.

„Þetta er fallegasta á á Íslandi, það er ekkert hægt að deila um það," segir hann. "Ég hef verið með kúnna frá mörgum ólíkum löndum og þeir verða allir agndofa þegar þeir koma í Stóru-Laxá. Þetta er á sem að maður gleymir aldrei."

Arnar Tómas segir að rennslið sé búið að aukast nokkuð undanfarna daga. Það hefði verið í rúmlega 5 rúmmetrum á sekúndu í töluverðan tíma en væri nú komið yfir 7.

„Kjörvatn er svona um 9 til 10 rúmmetrar á sekúndu, þannig að áin á enn töluvert í það," segir hann. Spurður hvort Stóra-Láxá þurfi að fara í 9 til 10 rúmmetra rennsli svo fiskurinn gangi úr Hvítá svarar hann: „Já og nei. Rennslið fór í 8 rúmmetra um daginn og þá gusaðist inn fiskur. Það þarf ekki svo mikið. Hann er byrjaður að iða fiskurinn og býður hreinlega eftir að ganga upp."

104 sentímetrar

Stóra-Laxá geymir ansi stóra fiska og því fékk Arnar Tómas að kynnast í byrjun júlí. Þá var hann við veiðar í Neðri Nálarhyl á svæði IV þegar hann setti í 104 sentímetra lax. Er þetta enn sem komið er stærsti lax sumarsins í ánni. Fiskurinn tók Sunray Shadow.

„Mér finnst Sunray Shadow orginal vera mjög góð í Stóru-Laxá — bæði hálftomman og tomman. Síðan er gamla góða Rauða Frances líka mjög góð og þá sérstaklega kvart-tomman með tungsten keilu. Þetta eru svona þær flugur sem hafa reynst mér hvað best á haustin. Sú veiðiaðferð, sem ég nota gjarnan á þessum árstíma er að þverkasta og menda síðan línuna niður. Þannig fæ ég meiri keyrslu á fluguna og þá kemur hann oft upp og neglir hana. Að sjálfsögðu notar maður aðrar aðferðir líka en þessi hefur reynst vel. Yfir sumartímann veiðir ég gjarnan á minni flugur í Stóru-Laxá og nota oft gárubragðið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.