*

Menning & listir 5. nóvember 2015

Úrslitin í Toppstöðinni ráðast í kvöld

Í kvöld verður lokaþáttur Toppstöðvarinnar sýndur á RÚV. Þá verður valið eftirlætis frumkvöðlaverkefnið.

Ásta Andrésdóttir

Í kvöld verður lokaþáttur Toppstöðvarinnar sýndur í beinni á RÚV. Þá getur þjóðin valið sitt eftirlætis frumkvöðlaverkefni sem hlýtur vegleg verðlaun fyrir.

Toppstöðin er raunveruleikaþáttur þar sem fylgst er með hvernig frumkvöðlum tekst að fullvinna vöru sína og koma á markað. Tæplega 130 verkefni sóttust eftir að vera með í þáttunum en aðeins átta voru valin til þátttöku. Upptökulið hefur fylgst með liðunum í sex mánuði þar sem þau hafa þróað hugmyndir sínar og fengið aðstoð færustu sérfræðinga.

Í kvöld munu liðin sýna þjóðinni verk sín í beinni útsendingu. Þetta er tækifæri þeirra til þess að koma nýrri vöru á markað og fá áhorfendur í lið með sér.

Þau lið sem keppa til úrslita eru: 

e1 en þeir hafa þróað smáforrit sem tengir saman eigendur rafbíla og eigendur hleðslustöðva. Þannig ætla þeir að byggja upp deilihagkerfi hleðslustöðva fyrir rafbíla og stuðla að hraðari uppbygginu nauðsynlegra innviða fyrir rafbíla.

Fíbra býður upp á nýja gerð byggingareininga úr trefjastyrktu plasti, með kjarna úr steinull, og er lokuð á köntum. Hús sem byggð eru með einingum Fíbra eru 25% prósent ódýrari en sambærileg hús á markaði og hægt er að byrja á litlu húsi sem svo er hægt að byggja við. 

Wappið er smáforrit sem gerir göngufólki kleift að hlaða niður leiðarlýsingum einstakra gönguleiða í snjallsímann. Þar er hægt að nálgast ítarlegar lýsingar á leiðum, nákvæm kort og staðarheiti ásamt gps hnitum svo hægt er að nýta snjallsímann sem leiðsögutæki. Forritið mun einnig innihalda hagnýtar og fræðandi upplýsingar um staðhætti, náttúrulýsingar, sögur og örnefni.

IceWind en hugmynd þeirra byggir á því að koma á markað íslenskum vindmyllum sem eru sérstaklega hannaðar fyrir erfiðar aðstæður og standast mjög mikið álag. Á sama tíma geta þær framleitt orku í mjög lágum vindi og henta því einnig fyrir staðvinda svæði. 

Happ app er smáforrit sem byggt er á jákvæðri sálfræði með það að markmiði að auka hamingju notenda. Forritið inniheldur jákvæð inngrip, sem eru æfingar sem byggja á rannsóknum jákvæðrar sálfræði um hvað auki hamingju og vellíðan fólks. Happ app mun innihalda mismunandi tegundir af jákvæðum inngripum og æfingum sem notendur geta nálgast í símanum sínum.

Formúla er sérhannaður æfingadrykkur byggður á vísindalegum rannsóknum lyfjafræðinga. Drykkurinn eykur kraft og úthald, hamlar niðurbroti vöðva, lágmarkar neikvæð eftirköst álags og eflir uppbyggingu. Formúla inniheldur fleiri en eitt innihaldsefni sem finnst ekki í neinu öðru fæðubótarefni á Íslandi.

Toppstöðin er framleidd af Sagafilm sem er stærsta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði sjónvarpsþátta- og kvikmyndagerðar og sjónvarpsauglýsinga. Auk Toppstöðvarinnar framleiðir Sagafilm meðal annars sjónvarpsþættina The Voice Ísland, The Biggest Loser Ísland og Rétt.