*

Hitt og þetta 3. mars 2006

Urðu þeir af 200 milljörðum?

Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu þá áætla Baugsmenn kostnað sinn vegna málaferlanna sem nú standa yfir um 1.200 milljónir króna og að hann geti farið upp í tvo milljarða áður en yfir lýkur. Þetta eru lágar tölur í samanburði við þau viðskipti sem Baugur hefur staðið í undanfarin ár. Samkvæmt heimildum bæjarrómsins hafa sakborningar einnig nokkrar hugmyndir um áætlað tap vegna þeirra viðskipta sem misfórust vegna málaferlanna og mun tölunni 200 milljörðum króna hafa verið kastað fram í því sambandi. Þar vega þyngst viðskiptin vegna Arcadia og Sommerfield þar kom til samningsrofs út af ákærunum og rannsóknum þeim tengdum. Uppgjör félaganna bendir til þess að þessar tölur séu ekki fjarri lagi en eins og kunnugt er lét Philip Green, sem tók við Arcadia-viðskiptunum þegar Baugur varð frá að hverfa, Arcadia greiða sér 130 milljarða út í arð í október síðastliðnum.

Uppstokkun í tölvuheiminum
Nýherjamenn liggja á stórri stöðu í sjálfum sér síðan Sund fór út og ekki séð hvað um félagið verður en óhætt er að segja að það hafi ekki vakið athygli fjárfesta um langt skeið. Það blasir hins vegar við að töluvert uppstokkun er að eiga sér stað á íslenska tölvuheiminum þessa daganna. Síminn er að koma mun ákveðnar inn þar en í hlutabréfasafni þeirra má finna mikið safn tölvufyrirtækja. Nýleg sala á EJS virðist ætla að enda þar inni og tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku á Kögun virðist enn vera í fullum gangi. Og nú síðast hefur verið greint frá sölu á Tæknivali sem hefur starfað með neikvætt eigið fé eins lengi og elstu menn muna. Meira að segja sjálfur endurreisnarmaðurinn Pálmi Haraldsson virðist hafa gefist upp á félaginu enda segja kunnugir að hann hafi aldrei náð að einbeita sér að því vegna mikilla fjárfestinga erlendis. Verður að telja líklegt að þeta sé ein þeirra fáu fjárfestinga sem Pálmi hefur tapað á.

Yfirtaka sparisjóðanna í gangi
Það leynir sér ekki að mikil harka er komin í mál Sparisjóðs Hafnarfjarðar enda greinilegt að Fjármálaeftirlitið (FME) og Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra ætla ekki að láta sitt eftir liggja í málinu. Flestum virðist augljóst að það er Baugur sem stendur bak við það og fjármagnar yfirtökuna með Magnús Ármann og félaga sér til fulltingis. Þarna virðist vera kominn virkur meirihluti og án þess að neinar tilkynningar hafi verið sendar eins og bera að gera varðandi fjármálafyrirtæki. FME virðist þó ætla að sýna meiri hörku eins og áður segir og greinilegt að þar eru ný vinnubrögð. Annars virðist flestum augljóst að smám saman er verið að taka stærstu sparisjóðina yfir og stýra Baugur, Kaupþing og MP Fjárfestingabanki uppskiptingunni.

Baugur fjárfestir í Criminal Clothing
Á Ímark-fundi á íslenska markaðsdeginum vakti athygli erlendur fyrirlesari sem heitir Reza Deghani og var titlaður framkvæmdastjóri hjá fataframleiðandanum Criminal Clothing. Hann var sömuleiðis sagður stofnandi og eigandi. Deghani var með myndglærusýningu og gat þess meðal annars að íslenskir fjárfestar hefðu keypt 50% í fyrirtækinu í ársbyrjun. Hann var þá spurður hverjir þessir íslensku fjárfestar væru en þegar hann sagði hver nöfn þeirra væru fór hláturskliður um salinn. Ástæðan var sú að hinn nýi eigandi var enginn annar en Baugur og sjálfsagt hefur fundarmönnum þótt þetta sniðugar upplýsingar í ljósi þeirra málaferla sem nú eru í gangi að tengja Baugsmenn með þessum hætti við við Criminal Clothing. Sumum fundarmönnum fannst reyndar eins og þetta hefði verið eitthvað feimnismál.