*

Hitt og þetta 14. júní 2004

Útflutningur hugbúnaðar rúmlega 3.700 milljónir

Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands hefur birt upplýsingar um útflutning hugbúnaðar fyrir árið 2003. Útflutningurinn nam 3.732 milljónum króna og jókst um rúmar 324 milljónir króna á föstu gengi frá fyrra ári eða um 9,5%. 95 fyrirtæki svöruðu könnun Seðlabankans um að hafa tekjur af útflutningi hugbúnaðar eða tölvuþjónustu á síðasta ári.

Í úttekt Seðlabankans kemur einnig fram að árið 2002 var Írland stærsti útflytjandi hugbúnaðar og tölvuþjónustu innan ESB. Ef litið er til OECD ríkja þá var Írland enn stærsti útflytjandinn en næst komu Bandaríkin.

Vegna útflutnings á árinu 2003 var send fyrirspurn til 136 fyrirtækja. Þar af voru 119 fyrirtæki eða 88% sem falla undir hugbúnaðargerð og ráðgjöf1 en 17 fyrirtæki eða 12% sem falla undir aðrar atvinnugreinar. Svör fengust frá 132 fyrirtækjum eða 97,1% fyrirtækjanna. Af þeim höfðu 95 fyrirtæki tekjur vegna útflutnings hugbúnaðar og tölvuþjónustu árið 2003.

Útflutningur hugbúnaðar nam eins og áður segir rúmum 3.732 milljónum króna í fyrra og jókst um rúmar 324 milljónir króna á föstu gengi frá fyrra ári eða um 9,5%. Fyrirtæki sem hafa hugbúnaðargerð og ráðgjöf sem aðalatvinnugrein stóðu undir 85% af útflutningnum og jókst útflutningur þeirra um 23% frá fyrra ári. Útflutningur fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum á hugbúnaði og tölvuþjónustu dróst hins vegar saman. Útflutningur hefur aukist úr 31 milljón króna árið 1990 í 3.732 milljónir króna á síðasta ári.

Hlutfall útflutningsins af heildarútflutningi vöru og þjónustu árið 2003 var 1,3% sem er lítilsháttar aukning frá árinu 2002 en þá var hlutfallið 1,2%. Af þessum tölum er ljóst að íslenskur hugbúnaðarútflutningur hefur vaxið mikið síðastliðin ár. Vöxturinn hefur verið samfelldur ef frá er talið árið 2001 þegar útflutningur dróst saman.