*

Tölvur & tækni 21. mars 2018

Útihurðinni stjórnað úr snjallsíma

Snjalllás gefur notendum upplýsingar um hvenær gengið er um hurð, ásamt því að stýra aðgangi að heimili.

Öryggismiðstöðin hefur sett á markað snjalllásinn Danalock V3 sem er nýjasta viðbótin við Snjallöryggi, sem er ný og snjallari kynslóð öryggiskerfa. Um er að ræða afar fullkominn og öruggan snjalllás, en með honum er á einfaldan hátt hægt að stjórna útihurðinni á heimilinu í gegnum app í snjallsíma segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Kristinn Loftur Einarsson, deildarstjóri hjá Öryggismiðstöðinni segir Snjalllásinn veita fullkomna stjórn á læsingu á útihurð heimilisins og að notandi geti séð stöðu læsingarinnar hvar og hvenær sem er.

„Mjög margir kannast við það verkefni að þurfa að skjótast heim úr vinnu til að opna fyrir krökkum sem hafa gleymt eða týnt lyklinum sínum. Með snjalllás er leikur einn að opna hurðina í gegnum app í snjallsíma,“ segir Kristinn Loftur.

„Ef það þarf að veita aðgang að heimilinu, er einfalt að búa til varanlega eða tímastillta aðgangsheimild með SMS eða tölvupósti. Notandi getur fengið skilaboð þegar viðkomandi samþykkir aðgangsheimild og þegar snjalllásinn er notaður. Þannig er hægt að fá að vita þegar börnin koma heim úr skóla. Týndir lyklar heyra nú sögunni til."

Mögulegt að fylgjast með notkun

Hægt er að fylgjast með hvenær og af hverjum snjalllásinn er notaður að sögn Kristins Lofts. „Notandi getur stjórnað snjalllásnum úr appi í síma hvaðan sem er. Það er því einfalt að opna fyrir þeim sem þurfa að komast inn á heimilið, hvort sem það er einhver úr fjölskyldunni, iðnaðarmaður eða tengdamamma,“ segir Kristinn Loftur.

„Svo er jafn auðvelt að læsa á eftir viðkomandi sé þess þörf. Með snjallreglum í Snjallöryggi er svo hægt að stilla inn margvíslegar sjálfvirkar aðgerðir, t.d. ef kerfi er varðsett eða tekið af verði, að lásinn fari í tiltekna stöðu eða að lásinn opnist ef brunaboð kemur frá reykskynjara, svo eitthvað sé nefnt. Það er val notenda að stilla slíkar reglur."

Einfaldur í uppsetningu

Kristinn Loftur segir mjög einfalt að setja lásinn upp. „Snjallásinn fer á hurðina að innanverðu og því þarf engar áhyggjur að hafa að veðuráhrifum. Lásinn er auðvitað algjörlega þráðlaus og gengur fyrir rafhlöðum. Rafhlaðan er endingargóð og snjalllásinn sendir frá sér skilaboð þegar skipta þarf um rafhlöður,“ segir Kristinn Loftur.

„Að utanverðu er læsingin óbreytt og því áfram hægt að nota hefðbundna lykla. Snjallásinn er með sérstakri TPM flögu sem tryggir öryggi tækisins. Á flögunni er vandaður dulkóðunarlykill og öll samskipti frá snjalllásnum fara fram án þess að persónugreinanlegar upplýsingar fari frá flögunni. Öryggisþættir snjalllássins hafa verið teknir út og samþykktir af fyrirtækjum á borð við Apple, Google Nest og Amazon."