*

Ferðalög 9. júní 2013

Útilegur fyrir þann sem efast

Það getur verið vesen að lenda í því að þurfa að fara í útilegu. Hér koma nokkur góð ráð fyrir slíkt havarí.

Lára Björg Björnsdóttir

Útilegur eru krefjandi. Hin mesta fjallageit myndi meira að segja viðurkenna þessa staðreynd. Ekkert freyðibað, enginn sófi og enginn djúpsteikingarpottur þegar þörfin kallar. Ó nei, í útilegu ert það bara þú og náttúran. En gleymum samt ekki búnaðinum sem getur gert þetta allt svo miklu, miklu þolanlegra. 

Sæng: Taktu með þér sæng en ekki svefnpoka. Sængin hefur löngum huggað heimþrá og veitt huggun. Ef það er engan veginn pláss fyrir sæng þá verður þú að minnsta kosti að taka með þér alvöru kodda. Annað er bara fyrir villimenn. 

Borðbúnaður og eldhúsáhöld: Ef þú ert eldri en tveggja ára þá borðar þú ekki með puttunum. Og það er engin ástæða til að rífa Sómapizzuna upp með tönnunum þegar þú getur fimlega klippt á plastið með góðum eldhússkærum. Það er að lokum algjör óþarfi að vanvirða pizzuna og annan útilegumat með plasthnífapörum eða svokölluðum „guðsgöfflum." 

Skraut: Færðu oft heimþrá þegar þú gistir að heiman? Taktu með þér eitthvað sem minnir þig á heimili þitt. Eins og blómapott eða fallega styttu. Það er alveg pláss í þessum tjöldum nú til dags. Ef ekki, má skreyta tjaldstæðið með þessum ómissandi hlutum að heiman. 

Sætmeti: Já já, þú ert í útilegu en ekki eyðimerkurgöngu. Hver nennir að borða mat sem var hannaður fyrir geimferðir? Duft í poka, bara blanda saman við vatn og þú ert komin(n) með spagettí bólónese? Minna. Hér er lykilatriði að gera vel við sig í harðindunum. Komdu við í bakaríi og kipptu með einni kransaköku og/eða marsípanfermetra og klassaðu þessa útilegu aðeins upp. 

Fatnaður: Klæddu þig í stíl við tjaldbúnaðinn. Ef tjaldið er grænt, vertu í sömu litapallettu. Það er fátt jafn þreytandi og óstílíseruð fjölskylda. 

Eyðsla: Taktu með þér posa og renndu kortinu nokkrum sinnum í gegn á meðan á útilegunni stendur. Þú ert vanur/vön að strauja kortið nokkrum sinnum á dag og vilt ekki fá fráhvarfseinkenni. Auðvitað er posinn ekki tengdur við rafmagn svo þú skalt láta bankann vita að þú sért að fara út í óbyggðir svo það verði ekki lýst eftir þér þegar þeir taka eftir því að engar færslur koma á kortið í meira en tvo daga. Björgunarsveitirnar eiga nóg með sitt þessa dagana. 

Dægradvöl: Æfðu söngatriðið “ég get líka tjaldað eins og þið” og þið fjölskyldan syngið þetta í kallkerfi tjaldsvæðisins alltaf á heila tímanum. Eða bara á matmálstímum ef þið eruð feimin (eða löt).  

Hreinlæti: Það er auðvitað bara rugl að gefa eitthvað eftir þegar kemur að almennu hreinlæti þó farið sé út fyrir borgarmörkin og það sama á við um hár og förðun. Hér þarf að skipuleggja sig. Taktu með þér auka koffort og fylltu það af þeim staðalbúnaði sem þarf fyrir hvert gott gamlárskvöld og/eða feitt brúðkaup. Þetta koffort skalt þú merkja rauða krossinum eða 112 svo björgun þessa búnaðar hafi forgang verði þið fyrir því að festa bílinn úti í á eða eitthvað. 

Vímuefni: Hér gildir reglan góða: Allt er best í hófi. Skál. 

Stikkorð: Terror  • Útivist