*

Menning & listir 12. ágúst 2014

Útilistaverkin í Breiðholti kosta 51 milljón

Dýrasta útilistaverkið í Breiðholti er keramikmynd eftir Erró við íþróttahúsið við Austurberg.

Heildarkostnaður vegna útilistaverka sem Reykjavíkurborg setur upp í Breiðholtin nemur 51 milljón króna. Keramikmynd eftir Erró sem sett verður upp við þróttahúsið við Austurberg er það dýrasta en það kostar rúmar 24 milljónir króna. Þessu greinir RÚV frá.

Á síðasta ári ákvað borgarráð Reykjavíkur að fjölga útilistaverkum í Breiðholti með því að panta fimm stórar veggmyndir eftir fjóra listamenn og átta minni veggmyndir eftir unga listamenn auk annara verka.

Nú er verið að leggja lokahönd á stóra veggmynd eftir Erró á gafli fjölbýlishúss við Álftahóla í Breiðholti. Síðasta haust var afhjúpað verk Theresu Himmer á húsgafli við Jórufell og fyrr í sumar var verk Söru Riel á fjölbýlishúsi við Asparfell afhjúpað. Það stendur svo til að setja upp stóra keramikmynd eftir Erró á vegg við íþróttahúsið við Austurberg. Einnig verða settar upp tvær höggmyndir eftir Ásmund Sveinsson á þessu ári og máluð veggmynd eftir Ragnar Kjartansson, en staðsetning hennar hefur ekki verið ákveðin.

Heildarkostnaður við verkin er ríflega 51 milljón króna. Verkin á húsgöflunum við Aspar- og Jórufell og verk Ragnars kosta hvert um sig rúmar 3,2 milljónir króna. Veggmynd Errós á blokkinni við Álftahóla er mun dýrari og kostar tæpar 10 milljónir króna. Dýrasta verkið er keramikverk Errós við íþróttahúsið sem áætlað er að muni kosta kosta rúmar 24 milljónir króna. Í samanburði við þennan kostnað er heildarkostnaður borgarinnar við Listasafn Reykjavíkur 331 milljón króna á þessu ári. 

Stikkorð: Reykjavíkurborg  • Erró  • breiðholt  • útilistaverk