*

Veiði 26. ágúst 2013

Útlit fyrir góða gæsaveiði í ár

Gæsastofnar eru sterkir og spáir Umhverfisstofnun að minnsta kosti jafn góðri veiði og í fyrra.

Bjarni Ólafsson

Veiðitímabil á grágæs og heiðagæs hófst þann 20. ágúst og stendur til 15. mars. Útlit er fyrir að veiði verði að minnsta kosti jafngóð og í fyrra og jafnvel betri. Grágæs og heiðagæs hefur fjölgað á undanförnum árum samkvæmt talningum og hækkandi veiðitölur endurspegla gott ástand á gæsastofnum. Steinar Rafn Beck, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að varpárgangurinn í fyrra hafi verið góður og talningar gefi til kynna að stofnar grá- og heiðagæsar standi vel. „Það eru ekki allir búnir að skila inn veiðiskýrslum, en miðað við reynslu fyrri ára gerum við ráð fyrir að í fyrra hafi verið veiddar um 48.000-49.000 grágæsir og 15.000-16.000 heiðagæsir.

Veiðin verður að öllum líkindum að minnsta kosti jafngóð í ár, en það fer þó eftir aðstæðum. Heiðagæsin er viðkvæm fyrir veðri og getur farið fyrr en ella af landinu ef veðrið breytist skyndilega.“

Til samanburðar veiddust tæplega 39.900 grágæsir árið 2011 og um 48.200 árið 2010. Árið 2011 veiddust um 12.400 heiðagæsir og árið 2010 voru veiddar heiðagæsir 17.900 talsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.