*

Heilsa 3. apríl 2013

Valhnetur minnka líkur á sykursýki um fjórðung

Neysla á valhnetum minnkar líkur á sykursýki 2 um fjórðung samkvæmt einni stærstu rannsókn á sykursýki 2 til þessa.

Valhnetur minnka líkur á sykursýki 2. Þetta eru niðurstöður einnar stærstu rannsóknar sem gerð hefur verið til þessa á sjúkdómnum. The New Zealand Herald segir frá niðurstöðunum á vefsíðu sinni.

Rannsakendur frá Harvard School of Public Health in Boston fylgdust með mataræði 137.893 hjúkrunarfræðinga frá 35 ára til 77 ára á tíu ára tímabili. Í ljós kom að þær, sem borðuðu valhnetur einu sinni til þrisvar í mánuði, minnkuðu líkurnar á sjúkdómnum um 4% og einu sinni í viku um 13%. Þær sem borðuðu pakka af valhnetum (28 grömm) að minnsta kosti tvisvar í viku voru 24% ólíklegri að fá sjúkdóminn heldur en þær sem borðuðu engar valhnetur.

Þessar niðurstöður, sem birtar voru í Journal of Nutrition, eru ekki þær fyrstu sem sýna fram á ágæti valhneta. En þó er þetta í fyrsta skipti sem niðurstöður sýna að regluleg neysla á valhnetum beri árangur í baráttunni gegn sykursýki 2.

Valhnetur þykja einnig afbragðs fæða gegn hjartasjúkdómum, krabbameini og gigt. 

Stikkorð: Sykursýki 2  • Valhnetur