*

Bílar 4. apríl 2018

Valinn fallegasti bíll heims

Range Rover Velar var kjörinn fallegasti bíllinn 2018 af dómnefnd World Car Awards.

Range Rover Velar var kjörinn „Fallegasti bíllinn 2018" af fjölskipaðri dómnefnd World Car Awards (WCA) sem tilkynnti niðurstöðu sína á bílasýningunni í New York í lok síðustu viku. Velar er því handhafi hönnunarverðlaunanna World Car Design of the Year 2018.

Að mati 75 manna dómnefndar WCA er hönnun Velar einstaklega sannfærandi þar sem bæði flæðandi línur og heildaryfirbragð bílsins er svo úthugsað að líkja má við verkfræðilegt afrek. Dómnefndin segir Velar jafnvel enn fallegri en Jaguar F-Pace sem sigraði með yfirburðum á síðasta ári þegar valið stóð um það hver yrði valinn „Sá fallegasti í heiminum 2017“. 

Jaguar Land Rover hefur áður hampað hönnunarverðlaunum WCA því Jaguar F-Type, Range Rover Evoque, Jaguar F-Pace hafa líka verið útnefndir þeir fallegustu hjá WCA. Að mati forstjóra Jaguar Land Rover, Ralf Speth, eru verðlaun World Car Awards í senn mjög mikilvæg og þakklát viðurkenning fyrir merki fyrirtækisins. „Verðlaunin eru skýr vitnisburður um mikið traust í garð hönnuða og verkfræðinga Jaguar Land Rover. Verðlaunin hvetja okkur áfram til frekari dáða á þessari einstöku braut sem hönnun okkar endurspeglar,“ sagði Speth m.a. í þakkarræðu sinni í New York.