*

Hitt og þetta 30. ágúst 2006

Valsmenn duglegir í leikmannasölum

Líflegt hefur verið yfir sölu á knattspyrnumönnum það sem af er sumri og óhætt að segja að Valsmenn hafi verið þar nokkuð í sviðsljósinu. Félagið hefur selt sjö leikmenn það sem af er ári og hefur hagnast ágætlega á þeim sölum. Augljóst er að nokkuð er sótt í íslenska leikmenn á Norðurlöndunum og hafa þeir Bjarni Ólafur Eiríksson, Garðar Bergmann Gunnlaugsson, Ari Freyr Skúlason og Garðar Jóhannsson verið seldir út fyrir landsteinana. Bjarni Ólafur til Silkeborg í Danmörku, Garðar Bergmann til Norrköping í Svíþjóð, Ari Freyr til Hacken í Svíþjóð og Garðar Jóhannsson til Fredrikstad í Noregi. Sömuleiðis fengu Valsmenn greiðslu frá KR fyrir Sigþór Júlíusson og einnig borguðu Þróttarar fyrir þá Jóhann Hreiðarsson og Þórhall Hinriksson.

Að sögn Óttars Edvardssonar, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Vals, eru augljóslega mestu peningarnir í umferð í Noregi enda hafa knattspyrnuliðin notið góðs af nýlegum sjónvarpssamningum. Því hefur verið haldið fram netmiðlum í Noregi að Fredrikstad hafi borgað ríflega 20 milljónir króna fyrir Garðar. Óttar sagði aðspurður að samningar væru trúnaðarmál og því gæti hann ekki tjáð sig um kaupverðið en hann staðfesti að salan á Garðari væri þeirra stærst og sagði Óttar að það væri augljóst að norsku liðin væru stöndug núna. Ef þessi söluupphæð er rétt þá er ljóst að Valur hefur 20 faldað verðmæti leikmannsins þann tæpa mánuð sem hann var hjá liðinu en það borgaði KR eina milljón króna fyrir hann. Óvissa hefur hins vegar skapast um hvort salan gangi eftir vegna leikmannaskiptaregla FIFA.

Þá má geta þess að Ármann Smári Björnsson hefur nú verið seldur til Brann í Noregi en hann fór frá Val fyrir tveimur árum. Að sögn Óttars gera þeir ráð fyrir að fá einhvern hluta af söluverðinu í sinn hlut.