*

Menning & listir 15. október 2012

Vandinn við að þrá konu aðra en manns eigin

Leikritið Svar við bréfi Helgu er magnað verk sem lýsir miklum sársauka.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Borgarleikhúsið sýndi leikritið Svar við bréfi Helgu í síðasta sinn á fimmtudag í síðustu viku. Leikgerð Ólafs Egils Egilssonar nær að fanga þann kyngimagnaða kraft sem býr í sögu Bergsveins Birgissonar af Bjarna bónda á Kolkustöðum og vandanum sem hann stendur frammi fyrir þegar líf hans öðlast nýja merkingu í formi endurgoldinnar ástar til giftrar konu á næsta bæ.

Samnefnd bók Bergsveins, sem kom út fyrir tveimur árum, er ekki mikil að vöxtum. En innihaldið er gímald, tilfinningar karls norðan við hníf og gaffal, eins og sagt er á Ströndunum, sem opnar frá rykföllnum hjartalokunum í fyrsta sinn með bréfaskrifum til ástkonu sinnar - en um hálfri öld of seint. Tregafyllra verður það varla.

Ást í glussaskýi

Sviðið í Borgarleikhúsinu var í samræmi við söguna, upp á rönd í kringum sviðið aftanvert stóðu fúnir og svo gisnir plankar eins og hurðin að fjárhúsinu sem Bjarni fékk í arf að föður sínum látnum að hún, eins segir í sögunni, megnaði ekki lengur að halda því innra aðskildu frá hinum ytra - og veldur því að sagan fer á blað. Í gegnum rifurnar stigu leikararnir fram á sviðið og sögðu leikhúsgestum sögu Bjarna, frá sveitinni, þúfunum, rafvæðingu sveitarinnar, gleðinni sem fólst í landbúnaðarbyltingunni með Farmlinum og snertingu fólks við jörðina og gjöfum hennar sem fáir kannast orðið lengur við nema íbúar dvalarheimila. Þeir eru sömuleiðis ytri umgjörðin um Bjarna og þá himnesku nautn og frygð sem hann upplifði með Helgu á næsta bæ, þeim þúfum sem hann veltist um af svo miklum ákafa að kynlífsfantasíur nútímans komast aldrei með tærnar þar sem saga Bergsveins af ástríðu Bjarna er með hælana. Þarna náði greddan hápunkti í íslenskum bókmenntum.

En á sama tíma og frygð Bjarna og Helgu er á útopnu í brjóstaþukli í glussaskýi er sársaukinn mikill og djúpur. Angistin sker í hjartað þegar Bjarni ákveður á tímamótum í lífi sínu að horfa á eftir þrá sinni og ávexti ástarinnar flytjast suður til Reykjavíkur á meðan líkaminn situr eftir í barnlausu og ástlausu hjónabandi í hokrinu í sveitinni. Þarna á Ströndum raknar Bjarni upp þar til í lokin að hann gerir upp líf sitt í bréfi án viðtakanda.

Leikgerðin er trú bókinni, hún heldur jafnvel útúrdúrum sem léttu söguna, s.s. því þegar Bjarni fer við annan mann á bát að ná í lík konu út í eyju - en gleymir skrokknum og kemur nokkrum mánuðum síðar eftir fimbulvetur til að ná í hann. Þótt lund leikhússgesta lyftist verð ég að viðurkenna að mér var farið að leiðast tuggan um Gissur í sýrkerinu bæði í bókinni og í leikhúsinu. Vel má þó vera nauðsyn, án þeirra hefði depurðin orðið manni um megn.

Þrusuflottur leikur

Þröstur Leó Gunnarsson, sem er á sviðinu allan tímann, á magnaðan leik þegar hann fangar tilfinningaumrótið í sögu Bergsveins með þeim yndislega orðaflaumi sem einkennir söguna. Gleðin í frygð og ástarbríma Bjarna í fengitíma lífs hans þegar hann hefur samband sitt við Helgu, sem Ilmur Kristjánsdóttir leikur, smitar út frá sér til áhorfenda - ekki þó svo, að ég geti fullyrt um aðra. Aðrir leikarar, sem flestir hverjir stíga í tvenn, sumir í þrenn hlutverk, standa sig vel. Auk þess bætti bæði verkið haganlegar lausnir sem leikarar sáu sjálfir um hvort heldur var uppsetning á þeim fáu leikmunum sem notaðir eru eða nauðsynleg bakhljóð, s.s. brýni rennt eftir ljá, sem skapaði spennu þegar kvittur um ástarsambandið fór af stað og illar tungur fóru á kreik.

Hreint út sagt var Svar við bréfi Helgu magnað verk. Leikgerðin er trú bók Bergsveins. Þröstur Leó náði bæði að kæta leikhúsgesti og græta í angist sinni og vesöld. Betra gerist það ekki. 

Sýnt aftur í vor

Eins og áður sagði var þetta síðasta sýning á verkinu. Það hefur verið sýnt 55 sinnum fyrir fullu húsi og tvívegis hefur sýningum verið hætt þrátt fyrir næga eftirspurn. Samkvæmt upplýsingum frá Borgarleikhúsinu er ástæðan fyrir því að sýningum var hætt nú sú að hún þurfti að víkja fyrir Gullregni, nýju íslensku leikverki í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Þegar er uppselt á 20 sýningar verksins. 

Þeir sem misstu af hinni margrómuðu ástarsögu Bergsveins Birgisssonar en langar til að sjá verkið geta tekið kæti sína því það verður sett upp í þriðja sinn næsta vor. Ekki er líklegt að sýningarnar verði margar enda lýkur leikárinu í maí.

Höfundur: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. jon@vb.is 

Hér má sjá myndskeið úr sýningunni: