*

Hitt og þetta 24. október 2018

Vann stærsta lottópott sögunnar

Miðahafi í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum vann yfir 190 milljarða króna í stærsta lottópotti sögunnar í gær.

Stærsti lottópottur sögunnar í bandaríska Mega Millions lottóinu, 1,6 milljarðar dollara, yfir 190 milljarðar króna gekk út í gær að því er Reuters greinir frá. Aðeins einn miðahafi með allar tölur réttar.

Vinningshafinn keypti miðann í Suður-Karólínuríki. Hann var með allar fimm aðaltölurnar réttar (5, 28, 62, 65, 70) og ofurtöluna (5) en líkurnar á að vera með allar tölur réttar á einum miða eru 1 á móti 303 milljónum. 

Talsverð eftirvænting hafði byggst upp vegna hins ógnarstóra potts, en íbúar í 44 ríkjum Bandaríkjanna geta tekið þátt í lottóinu, auk íbúa höfuðborgarinnar Washington og Bandarísku Jómfrúaeyja.

Vinningshafinn getur ráðið því hvort hann vilji fá 904 miljónir dollara, um 108 milljarðar króna greidda út strax eða alla upphæðina, yfir 190 milljarða króna greidda út á næstu 29 árum.

Gamla metið er úr Powerball lottóinu frá árinu 2016 en þá gekk út vinningur upp á rétt tæplega 1,6 milljarða dollara.