*

Veiði 16. maí 2014

Varðstjórinn í veiðinni

Árni Friðleifsson, sem margir þekkja sem varðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, tók við formennsku SVFR í vetur.

Trausti Hafliðason

Árni Friðleifsson tók við formennsku í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur (SVFR) af Bjarna Júlíussyni, sem gegnt hafði starfinu í nokkur ár og siglt félaginu í gegnum mikinn ólgusjó eftir hrun.

„Félagið var stofnað þann 17. maí árið 1939," segir Árni en félagið fagnar einmitt 75 ára afmæli um þessar mundir. "Félagið var stofna um Elliðaárnar en helsta hlutverk félagsins í byrjun var að standa vörð um framtíð stangaveiði í ánum og tryggja að Íslendingar gætu veitt í þeim. Svo vindur félagið upp á sig og stækkar eftir því sem árin líða og í dag eru félagsmenn ríflega þrjú þúsund talsins.

„Sérstaða félagsins er fólgin í því að við erum með gríðarlega fjölbreytt veiðisvæði innan okkar vébanda. Við bjóðum sem dæmi upp á veiði með fullri þjónustu eða svokallað hótelveiði, eins og í Langá. Við bjóðum líka upp á laxveiði í minni ám þar sem fólk sér um sig sjálft sem og silungsveiði eins og til dæmis í Laxá í Laxárdal og Laxá í Mývatnssveit og svo bjóðum við líka upp á vatnaveiði. Þannig að félagar í Stangaveiðifélaginu ættu að finna eitthvað við sitt hæfi."

Árni segir að það sé gríðarlegur auður inni í félaginu sjálfu - í félagsmönnunum.

„Við erum með árnefndir sem sinna flestum af okkar svæðum. Þetta eru vel á annað hundrað manns sem á hverju ári leggja á sig ómetanlega vinnu við að betrumbæta aðstöðuna við árnar með ýmsum hætti. Þetta er óeigingjarnt og ómetanlegt starf sem þetta fólk leggur á sig. Það eru ekki mörg félög sem geta státað af því að vera með svona stóran hóp í sjálfboðastarfi."

Árni segir að nú hafi verið settur aukinn kraftur í félagsstarfið með það að markmiði að efla innra starf félagsins. Sem dæmi nefnir hann að haldin hafi verið fjölmörg fræðslu- og skemmtikvöld í vetur og sérstök kvennadeild hafi verið stofnuð innan félagsins, sem hafi verið mjög virk. Þá sé barna- og unglingastarfið í miklum blóma.

Stikkorð: Veiði