*

Matur og vín 11. febrúar 2013

Vatnsblanda viskíið vegna eftirspurnar

Maker's Mark viskíið bandaríska verður þynnra í framtíðinni til að hægt sé að selja fleiri flöskur.

Væntanlega vildu flest fyrirtæki þurfa að takast á við vandann sem Beam Inc., sem m.a. framleiðir Maker's Mark bourbon viskíið, er að glíma við nú. Eftirspurn eftir Maker's Mark hefur aukist gríðarlega undanfarin ár í takt við aukna eftirspurn eftir bourbon viskíi í Bandaríkjunum almennt. Viðbrögð Beam eru aftur á móti ekki líkleg til að falla aðdáendum viskísins í geð. Til að mæta þessari eftirspurn ætlar fyrirtækið að minnka styrkleika viskísins um þrjú prósentustig. Það hefur hingað til verið 45% en verður í framtíðinni 42%. Þetta er í raun 6,7% minnkun áfengismagns í hverri flösku.

Verðið á Maker's Mark hefur verið hækkað vegna eftirspurnarinnar, en stjórnendur fyrirtækisins líta augljóslega svo á að það sé ekki nóg.

Í bréfi, sem Beam sendi viðskiptavinum sínum, segir að fyrirtækið hafi látið framkvæma ítarlegar prófanir á viskíinu og að það sé sannfært um að veikingin hafi engin áhrif á bragðgæði. Það er aftur á móti erfitt að ímynda sér að það fari vel í drykkjumenn að lesa það að blanda eigi vatni í uppáhaldsviskíið.

Stikkorð: Viskí  • Maker's Mark