*

Sport & peningar 23. apríl 2012

Veðbankar bjartsýnir fyrir hönd breskra íþróttamanna

Veðbankinn Sky Bet telur miklar líkur á því að breskir ólympíukeppendur standi sig vel í sumar.

Breskir íþróttamenn eru líklegir til stórræðanna á ólympíuleikunum í London í sumar ef marka má spár veðbankans Sky Bet. Líkurnar á því að breskir íþróttamenn fái fleiri en 100 verðlaunapeninga eru einn á móti 50 að mati bankans, að því er segir í frétt Forbes. Telur veðbankinn að nær öruggt sé að breskir íþróttamenn fái fleiri en 22 gullverðlaun.

Áhugamenn um veðmál á netinu hafa um alls konar valkosti að ræða hjá Sky Bet og sambærilegum veðbönkum og virðast veðmál þar sem líkurnar eru einn á móti 100 vera vinsælust. Er boðið upp á alls konar samsett veðmál, þar sem nokkrir nafngreindir íþróttamenn þurfa að vinna í hverri íþrótt fyrir sig til að bankinn greiði út.

Skipuleggjendur leikanna hafa haft náið samstarf með breskum veðbönkum til að koma í veg fyrir ólögleg veðmál, en almennt er talið að slík starfsemi auki líkurnar á svindli í íþróttum.