*

Tölvur & tækni 15. september 2013

Vefurinn er allt í öllu í dag

Hugsmiðjan er fyrirtæki sem býr til vefsíður. Fyrirtækið var stofnað árið 2001.

„Við erum með slatta af forriturum, grafíska hönnuði og fólk með ýmsa menntun, framkvæmdastjórinn er framleiðsluverkfræðingur og síðan er það ég,“ segir Sigurhanna Kristinsdóttir, viðskiptafræðingur og starfsmaður Hugsmiðjunnar, spurð hvaða bakgrunn starfsfólk fyrirtækisins hafi. Sigurhanna segir verkefni þess fjölbreytt og í dag vinni um þrjátíu manns í Hugsmiðjunni sem er í meirihlutaeigu starfsmanna.

Nýlega var Vefakademía Hugsmiðjunnar stofnsett. „Þar munum við veita fólki innsýn í vefheiminn og bjóða upp á endurmenntun fyrir þá sem starfa í geiranum. Það eru mörg skemmtileg námskeið í boði, meðal annars námskeið um undirbúning vefverkefna og vefgreiningar, samfélagsmiðla og innri vefi,“ segir Sigurhanna.

Netnotendur ættu einnig að geta nýtt sér blogg Hugsmiðjunnar þar sem fjallað er um hin ýmsu mál sem tengjast vefnum. „Í vetur ætla ég að skrifa um verkefnastjórnun á bloggið en svo höfum við sérfræðinga á ýmsum sviðum vefsins sem láta ljós sitt skína. Það vantar tilfinnanlega íslensk blogg sem eru áhugaverð út frá faglegum nótum svo við erum afar stolt af þessari vinnu okkar. Við fáum stundum til okkar gestabloggara og reynum að hafa nýtt áhugavert efni í hverri viku,“ segir Sigurhanna sem er að auki í MPM-námi í HR sem heitir Master í verkefnastjórnun og stefnir á útskrift næsta vor.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Hugsmiðjan