*

Veiði 22. janúar 2014

Veiða lax fyrir hádegi og vinna eftir hádegi

Um 950 veiðimenn sóttu um veiðileyfi í Elliðaánum en aðeins 660 leyfi eru í boði. Dregið verður um það hverjir fá leyfi í þessari eftirsóttu laxveiðiá á morgun.

Trausti Hafliðason

Það er mjög eftirsótt að veiða í Elliðaánum og hefur verið í fjölda ára. Áin hefur þá sérstöðu umfram aðrar laxveiðiár að renna í gegnum höfuðborgina. Eftirspurn eftir veiðileyfum er það mikil að menn geta einungis keypt hálfan dag.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) kom þessu fyrirkomulagi á til þess að sem flestir fengju tækifæri til að veiða í ánni. Fyrir þá veiðimenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu er því mögulegt að veiða fyrir hádegi og mæta í vinnu eftir hádegi eða öfugt, sem er einstakt.

Að þessu sinni sóttu um 950 félagsmenn SVFR um veiðileyfi ánni en einungis 660 veiðileyfi eru í boði þannig að ljóst er að um þriðjungur þeirra sem sóttu um munu ekki fá veiðileyfi. Til þess að einfalda úthlutunina gátu veiðimenn ekki sótt um ákveðinn dag heldur áttu þeir að tilgreina í hvaða viku þeir vildu veiða og hvort þeir vildu veiða fyrir eða eftir hádegi í þeirri viku.

Nú er búið að fara í gegnum umsóknir og vildu langflestir veiða í vikunni 12. til 18. júlí enda er laxinn þá genginn af krafti í ána og búinn að dreifa sér nokkuð vel. Draga þarf um það hverjir fá veiðileyfi í þeim vikum þar sem eftirspurnin var meiri en framboðið. Útdrátturinn fer fram á morgun klukkan 17.30 í húsnæði Stangaveiðifélagsins Reykjavíkur, sem er við Rafstöðvarveg 11.