*

Veiði 20. júní 2016

Veiddi 14 punda maríulax

Veiði hófst í Elliðaánum í morgun og komu nokkrir maríulaxar á land. Þá fékk borgarstjórinn tvo nýgengna smálaxa.

Trausti Hafliðason

Hjónin Reinhard Reinhardsson og Karólína Inga Guðlaugsdóttir hafa verið valin Reykvíkingar  ársins 2016. Þau fengu þann heiður að opna Elliðaárnar í morgun með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Karólína Inga gerði sér lítið fyrir og landaði einum stærsta laxi sem veiðst hefur við opnun ánna undanfarin ár, 87 sentímetra hæng, sem vó um 14 pund og var fiskurinn hennar mariulax. Reinhard fékk einnig maríulaxinn í morgun sem og Elísabet, dóttir þeirra hjóna.

Dagur renndi síðan fyrir lax og fékk tvo nýgengna smálaxa. Átta laxar voru komnir á land fyrir klukkan 10.  Að sögn Árna Friðleifssonar, formanns Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem hefur haft árnar á leigu frá Reykjavíkurborg frá 1939 fer laxveiðin í Elliðaánum því einkar vel af stað þetta árið.

Hjónin Reinhard og Karólína Inga voru tilnefnd fyrir ræktunarstarf sitt í Selásnum sem þau hafa unnið í góðu samstarfi við borgina. Fyrir 12 árum keyptu hjónin parhús við Viðarás en fyrir ofan húsið voru melar og í rigningum skreið aur í nærliggjandi garða. Þau hófu því að planta trjám og binda jarðveginn með gróðri. Ræktunarstarfið vatt upp á sig og nú hafa þau plantað talsverðum skógi frá Viðarásnum niður að Suðurlandsvegi og sjá um að viðhalda talsvert stórri landspildu í fallegri rækt allt í kringum hús sitt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Stikkorð: Laxveiði  • stangaveiði