*

Veiði 13. október 2018

Veiði dróst saman um þriðjung

Laxveiði í ám á Norðurlandi var töluvert verri í sumar en í fyrra.

Trausti Hafliðason

Laxveiði í ám á Norðurlandi dalaði töluvert á milli ára. Miðað við tölur af vefsíðu Landssambands veiðifélaga (LV) þá veiddust rúmlega 7.000 laxar í ellefu ám í þessum landshluta í sumar samanborið við ríflega 9.700 laxa sumarið 2017. Lætur nærri að veiðin hafi dregist saman um þriðjung á milli ára í þessum landshluta.

Aukning á Vestur- og Austurlandi

Til samanburðar jókst veiðin á milli ára í ám á Vesturlandi og Austurlandi. Með fyrirvara um að enn eiga eftir að birtast lokatölur í nokkrum ám þá stefnir allt í að veiðin í 21 laxveiðiá á Vesturlandi aukist um tæplega 1.800 á milli ára. Fari úr um 14.600 löxum sumarið 2017 í 16.400 á þessu ári. Þær ár sem skera sig úr á Vesturlandi eru Þverá og Kjarra, Haffjarðará og Laxá í Dölum. Veiði í þessum ám jókst um 330 til 400 laxa á milli ára. Í fimm ám á Austurlandi veiddust um 700 fleiri laxar í sumar en árið 2017. Munar þar mestu um Selá í Vopnafirði sem fer úr 937 löxum í 1.340 á milli ára. Ágætt er að ítreka að í þessari samantekt er stuðst við veiðitölur sem birtar eru á vef Landssambands veiðifélaga, angling.is.

Færri laxar á Suðurlandi

Á Suðurlandi eru flestar helstu árnar hafbeitarár og þar er því enn verið að veiða. Miðað við stöðuna á fimmtudaginn þá höfðu veiðst ríflega 600 færri laxar á Suðurlandi í sumar en sumarið 2017.

Munar þar langmest um veiði í Ytri-Rangá en í fyrra veiddist 7.451 lax í ánni en á fimmtudaginn voru 3.910 laxar komnir á land. Eystri-Rangá, Urriðafoss í Þjórsá og Affallið í Landeyjum hafa hins vegar að stórum hluta bætt þetta upp. Í þessum þremur ám höfðu fyrir viku veiðst tæplega 3.000 fleiri laxar en árið 2017.

Norðurlandið

Stóru breyturnar í laxveiði á Norðurlandi eru Miðfjarðará og Blanda. Í Miðfjarðará veiddust nú 2.719 laxar samanborið við 3.765 sumarið 2017. Í þessu samhengi ber að geta þess að veiði í Miðfjarðará hefur verið ævintýraleg góð síðustu ár. Sem dæmi veiddust yfir 6.000 laxar í ánni sumarið 2016 og meðalveiði síðustu tíu ára er ríflega 3.400 laxar. Frá aldamótum er meðalveiðin rúmlega 2.300 laxar á ári.

Dræmt við Húnafjörð

Í Blöndu veiddust 870 laxar í sumar samanborið við 1.433 sumarið 2017. Ein helsta skýringin á dræmri veiði í Blöndu í sumar er að hún fór óvenju snemma á yfirfall eða strax í byrjun ágúst eða mánuði fyrr en sumarið 2017. Meðalveiði í Blöndu síðustu tíu ár er um 2.200 laxar og frá aldamótum er meðalveiðin um 1.600 laxar á ári.

Veiði í öðrum ám sem renna í Húnafjörð var líka mjög dræm. Í Vatnsdalsá veiddist 551 lax samanborið við 714 sumarið 2017. Í Víðidalsá veiddust 588 laxar en 781 árið á undan og í Laxá á Ásum veiddust 702 laxar síðasta sumar en 1.108 sumarið 2017. Í þessum þremur ám dróst veiðin því saman um 762 laxa á milli ára.

Í Laxá í Aðaldal veiddust síðan 608 laxar í sumar samanborið við 709 sumarið 2017.

Erfitt í Svartá og Fnjóská

Veiði í Svartá í Svartárdal hefur vart verið svipur hjá sjón síðustu tvö ári. Í sumar veiddust 129 laxar í ánni sem er nánast sama veiði og í fyrra en þá komu 128 laxar á land. Meðalveiði síðustu tíu ára í Svará er 335 lax á ári. Frá aldamótum er meðalveiðin 303 lax á ári.

Svipaða sögu er að segja af Fnjóská. Þar veiddust 126 laxar í sumar samanborið við 107 í fyrra. Á síðustu tíu árum er meðalveiðin í Fnjóská 417 laxar á ári. Í þessu samhengi ber að nefna að sumarið 2010 var algjört metár í Fnjóská en þá veiddust 1.054 laxar í ánni. Frá aldamótum er meðalveiðin í Fnjóská 362 laxar á ári. Á þessu er alveg ljóst að bæði Svartá og Fnjóská hafa átt mjög undir högg að sækja síðustu tvö ár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Laxveiði