*

Veiði 3. febrúar 2018

Veiði á framandi slóðum

Smám saman fer þeim veiðimönnum fjölgandi sem vilja prófa eitthvað nýtt og egna fyrir framandi fiskum í heitum löndum.

Trausti Hafliðason

Fyrir tilstilli hjónanna  Ólafs Vigfússonar og Maríu Önnu Clausen, sem reka verslanirnar Veiðihornið og Veiðimanninn, hélt Tarquin Millington-Drake, framkvæmdastjóri Frontiers, kynningu á saltvatnsveiði á þriðjudagskvöldið. Kynningin var haldin í Veiðihorninu og var húsfyllir.

Frontiers er ferðaskrifstofa, sem frá árinu 1969 hefur sérhæft sig í að skipuleggja veiðiferðir. Fjölmargir erlendir veiðimenn hafa komið til Íslands á vegum Frontiers en nú er ferðaskrifstofan að bjóða Íslendingum að prófa eitthvað nýtt — saltvatnsveiði heitum löndum. Frontiers býður upp á gríðarlega mikið framboð af ferðum til margra ólíkra áfangastaða. Til þess að nefna einhverja staði má nefna Seychelles-eyjur í Indlandshafi, Bahamaeyjurnar í Karabíska hafinu og Jólaeyju í Kyrrahafinu.

Margr fara á skíði og í golf

Ólafur og María Anna hafa stundað saltvatnsveiði í um átta ár.  „Frá því að við byrjum á þessari veiði höfum við fundið vaxandi áhuga hjá veiðimönnum hér heima," segir Ólafur. „Fólk er mikið að spyrja út í þetta og þessa vegna datt okkur í hug að hafa samband við Tarquin Millington-Drake og spyrja hvort hann væri ekki til í að vera með kynningu hjá okkur. Hann tók mjög vel í það.

Ég á marga vini sem fara til útlanda á skíði yfir vetrartímann eða í golf en ég á enga vini sem fara að veiða á veturna. Sá möguleiki hefur einfaldlega ekki verið inni á radarnum hjá fólki . Einhverra hluta vegna hefur þetta þótt of fjarlægt. Þess vegna held ég að það þurfi að opna augu Íslendinga fyrir þessum möguleika því þetta er sannarlega ekki fjarlægur möguleiki."

Fyrir íslendinga, sem veiða lax og silung, eru fisktegundirnar sem egnt er fyrir í saltvatnsveiði mjög framandi. Á meðal tegunda sem veiðimenn eru að kljást við í þessum heitu löndum eru bonefish, permit, trevally, milkfish, triggerfish, parrotfish, Sailfish. Ólafur segist eingöngu veiða á flugu og oftast notast við níu feta stífar einhendur, með línuþyngdum frá 6 til 12.

Kostnaður

Líkt og með alla veiði þá er mjög misjafnt hvað kostar að fara í saltvatnsveiði erlendis. Á meðal veiðistaða sem þau hjón Ólafur og María Anna hafa farið til er Jólaeyja (e. Christmas Island) í Kyrrahafi. Þangað fóru þau til að mynda síðasta haust með átta manna hóp.

„Á Jólaeyju kostaði stöngin 2.800 dollara eða 288 þúsund krónur. Innifalið í því var gisting í veiðihúsi í sjö daga, matur og veiði í sex daga með leiðsögumanni. Stöngin kostar því 48 þúsund krónur á dag. Jólaeyja er nánast hinum megin á hnettinum þannig að vissulega kostar að koma sér þangað en ef fólk ákveður þetta tímanlega þá er vel hægt að fá flugið á 150 þúsund krónur."

Heillandi veiði

Ólafur segir að það sé margt heillandi við þessa veiði. „Fyrst og fremst er þetta náttúrlega gríðarlega skemmtilegt. Maður er að kljást við stóra og sterka fiska í 25 stiga hita. Veiðin er undantekningalaust góð því maður er alltaf að fá slatta af fiskum á hverjum einasta degi. Síðast en ekki síst þá brýtur þetta upp íslenska veturinn."

Ólafur segir að ef fólk vilji kynna sér þetta betur þá geti það kíkt við í Veiðihorninu eða bara skoðað vefsíðu Frontiers. „Það er náttúrlega fullt af ferðaskrifstofum að bjóða upp á svona ferðir. Ástæðan fyrir því að við völdum Frontiers er að í þeim ferðum sem við höfum farið með þeim þá  hefur alltaf allt staðist eins og stafur á bók."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.