*

Veiði 16. september 2012

Veiðihúsið við Breiðdalsá vel heppnuð og falleg bygging

Gott veiðihús verður að vera rúmgott og aðstaða fyrir veiðimenn í setustofu verður að vera góð, að mati sérfróðra.

Veiðihúsið við Breiðdalsá þykir eitt það fallegasta á Íslandi, að mati nokkurra þaulreyndra veiðimanna, sem Viðskiptablaðið leitaði álits hjá. Guðmundur Guðjónsson, rit­stjóri veiðivefsins Vötn og veiði, segir: „Tvö veiðihús eru í mínum huga skör ofar en önnur, annars vegar við Hítará og hins vegar við Breiðdalsá.“ Karl Lúðvíksson, ritstjóri veiðivefs mbl.is, er sammála Guðmundi um ágæti hússins við Breiðdalsá. „Það er erf­itt að velja fallegasta veiðihúsið því þau eru mörg orðin alveg eins og fyrsta flokks hótel en ef ég vel úr þeim veiðihúsum þar sem ég hef gist, og þau eru orðin allmörg, þá verð ég að segja að veiðihúsið við Breiðdalsá er einstaklega vel heppnuð og falleg bygging.“

Almennt um veiðihús leggja sér­fræðingarnir áherslu á aðstöðu og umhverfi eins og áður segir. „Það þarf að vera rúmgott, góð aðstaða fyrir veiðimenn í setustofu þar sem menn spjalla, spá og spekúl­era í veiðinni,“ segir Bjarni Júlíusson, formaður SVFR. „Gott starfsfólk með notalegt viðmót. Staðsetning og umhverfi sé fallegt. Gufubað til að ylja veiðimönnum í haustveiðinni þegar norðangarr­inn er búinn að blása öllum yl úr kroppnum. Þægileg og rúmgóð herbergi með góðu útsýni yfir fal­legan veiðistað. En þó þessa hluti kunni að skorta, þá bætir góður félagsskapur veiðimanna og ég tala nú ekki um góða veiði, úr flestum vandamálum!“

Stikkorð: Veiðihús