*

Veiði 15. maí 2014

Veiðileyfi í Elliðaánum og Langá í verðlaun

Stangaveiðifélag Reykjavíkur fagnar 75 ára afmæli á laugardaginn. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Trausti Hafliðason

Afmælishátíð Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) verður haldin í húsakynnum félagsins við Rafstöðvarveg 14 niður við Elliðaár. Hátíðardagskráin hefst klukkan eitt og stendur til fjögur.

„Það verður boðið upp fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna," segir Árni Friðleifsson, formaður SVFR. „Það verður til dæmis haldin kastkeppni og svo munu fluguhnýtingameistarar koma og sýna hnýtingar. Hver veit nema einhverjar afmælisflugur líti dagsins ljós.

Það verður slegið upp grillveislu og farið með krakkana í ratleik. Veiðimaðurinn kunni Ásgeir Heiðar mun ganga með þeim sem vilja með fram bökkum Elliðaáa og lýsa því sem fyrir augu ber.

Við munum einnig vera með sérstakt tilboð á veiðileyfum á urriðasvæðunum fyrir norðan og svo verða þeir sem eru búnir að borgar félagsgjöldin sjálfkrafa með í veglegu happdrætti en dregið verður eftir félagsnúmerum. Á meðal vinninga verða veiðileyfi í opnun Elliðaánna og þá eftir hádegi og veiðileyfi á besta tíma í Langá."

Veiðileyfið í Langá er með fæði og gistingu fyrir tvo og er verðmæti vinningsins 205 þúsund krónur en alls veiddust 2.815 laxar í ánni síðasta sumar.

Stikkorð: Veiði