*

Veiði 26. júní 2014

Veiðimenn hafa aldrei sleppt jafn mörgum löxum og í fyrra

Stangveiðimenn slepptu aftur út í á um 34% af þeim löxum sem þeir veiddu.

Trausti Hafliðason

Aldrei hefur fleiri löxum verið sleppt en á síðasta ári að því er fram kemur í nýrri skýrslu Veiðimálastofnunar um lax- og silungsveiðina 2013. Í fyrra veiddust um 68 þúsund laxar á stöng hérlendis og slepptu veiðimenn ríflega 23 þúsund þeirra aftur út í á. Hlutfall slepptra laxa var því 34% og hefur aldrei verið hærra.

Mikilvægt að sleppa

Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, segir það jákvæða þróun að veiðimenn sleppi í auknum mæli löxum. Hlutfallið hafi farið hækkandi á þeim tíma sem Veiðimálastofnun hafi tekið saman tölur um fjölda laxa sem er sleppt. „Hver á hefur ákveðna stærð af búsvæðum sem geta fóstrað seiði. Í þeim ám þar sem framleiðsla seiða gæti verið meiri ef hrygningarstofninn væri stærri er auðvitað mikilvægt að löxum sé sleppt,“ segir Guðni. „Ástæðan fyrir því að svona mörgum tveggja ára löxum er sleppt er að mörg veiðifélög skylda veiðimenn til að sleppa löxum sem eru meira en 69 eða 70 sentimetra langir,“ segir Guðni. „Þetta hafa þau gert af því tveggja ára löxum hefur farið fækkandi hérlendis.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði  • Guðni Guðbergsson