*

Veiði 2. júlí 2016

Veiðimenn slepptu 28 þúsund löxum

Alls veiddust 71.708 laxar í íslenskum ám í fyrra og er sífellt fleiri löxum sleppt.

Alls veiddust 71.708 laxar í íslenskum ám í fyrra að því er fram kemur í nýrri skýrslu Veiðimálastofnunar um lax- og silungsveiðina í fyrra. „Skráð stangveiði 2015 var sú fjórða mesta sem skráð hefur verið hér á landi og rúmlega tvöfalt meiri en var á árinu 2014 þegar 33.598 laxar veiddust. Veiðin var um 76% yfir meðalveiði áranna 1974-2014 (40.684),“ segir í skýrslunni.

Ákveðin hugarfarsbreyting er að verða á meðal veiðimanna. Sífellt fleiri eru farnir að sleppa laxi. Reyndar er víðast hvar einhver kvóti og oft ber laxveiðimönnum að sleppa öllum stórlaxi eða laxi sem er 70 sentímetrar eða lengri. Samkvæmt skýrslu Veiðimálastofnunar hafa laxveiðimenn aldrei sleppt jafnmörgum löxum og í fyrra eða 28.120 löxum, sem var 39,2% af veiddum laxi. Árið 2013, þegar 68.042 laxar veiddust, var 23.133 sleppt eða 34%.

Árið 2014 var reyndar hlutfallslega flestum löxum sleppt eða 40,5%. Það ár var veiðin aftur á móti mjög léleg. Af 33.598 löxum var 13.616 sleppt. „Þessi fiskar sem búið er að sleppa skila sér inn í hrygningarstofninn og í flestum ám eru það góðar fréttir,“ segir Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun.

Stikkorð: Veiði  • Laxveiði  • Laxar